Viðar Guðjónsson
„Ég er gríðarlega stoltur að hafa fengið þetta traust frá félögum mínum. Það hefðu fáir trúað því að ráðherra efnahagsmála og velferðarmála sem hefur þurft að takast á við þau verkefni sem ég hef gert sem ráðherra, bæði hvað varðar atvinnuúrræði og skuldavanda heimilanna, ætti kost á endurkjöri,“ segir Árni Páll Árnason örfáum mínútum eftir að hann sigraði í prófkjöri Samfylkingarinnar í SV-kjördæmi.
Frambjóðendur máttu þola langa bið áður en úrslit voru kunngjörð. Árni segir að hún hafi ekki haft áhrif á hann. „Ég var búinn að ákveða það innra með mér að mér nægði að tryggja þingsæti. Því var ég nokkuð rólegur. Ég taldi líklegt að ég myndi ná þingsæti. Ég skildi vel þá félaga mína sem vildu að kona leiddi listann í þessu kjördæmi,“ segir Árni sigurreifur.