Kosning stendur nú yfir í flokksvali Samfylkingarinnar í Suðvestur- og Norðausturkjördæmi. Rétt fyrir hádegi höfðu tæplega 1.200 manns kosið í flokksvalinu í Suðvesturkjördæmi og tæplega 400 manns í Norðausturkjördæmi samkvæmt upplýsingum frá flokknum en kosningarétt hafa flokksmenn og skráðir stuðningsmenn.
Samtals eru 5.683 á kjörskrá vegna forvalsins í Suðvesturkjördæmi og þar af 5.080 flokksfélagar og 603 skráðir stuðningsmenn. Tæplega 2.200 eru á kjörskrá í Norðausturkjördæmi.
Kosningarnar í kjördæmunum tveimur hófust á miðnætti aðfaranótt föstudags og lýkur kosningunni í Suðvesturkjördæmi klukkan 17 í dag og klukkan 18 í Norðausturkjördæmi. Um rafræna kosningu er að ræða sem fram fer á heimasíðu Samfylkingarinnar www.xs.is en þeir sem ekki eru nettengdir geta kosið á ákveðnum stöðum í kjördæmunum í dag.
Gert er ráð fyrir að niðurstöður í flokksvalinu liggi fyrir um klukkan 18:30-19:00 í kvöld.
Fréttaskýring mbl.is: Einn þingmaður dettur út