„Ég er harla glaður með þetta, að fá 12% atkvæða í fyrsta sætið og fá næstflest atkvæði í fyrsta sætið,“ sagði Vilhjálmur Bjarnason eftir að lokatölur voru birtar í prófkjöri Sjálfstæðisflokks í Suðvesturkjördæmi. Vilhjálmur náði 4. sæti og segist mjög sáttur við sinn árangur.
Vilhjálmur segist ekki síst ánægður því vinnan við prófkjörið hafi verið hjá honum sjálfum. Hann hafi ekki verið með kosningaskrifstofu eða skipulagðar hringingar í flokksmenn. „Ég er ánægður því þetta er minn persónulegi sigur. En þótt orrustan hafi unnist þarf að vinna stríðið, sem heita kosningar. Það þarf að stilla strengi og ekki aðeins í þessu kjördæmi heldur í fleiri kjördæmum.“
Hann segir ljóst að aðrir hafi verið með stærri „batterí“ á bak við sig. „Það var eiginlega bara með annarri hendi sem ég gerði þetta. Og sigurinn er sætur fyrir mig. Ég viðurkenni það alveg. Ég er stoltur af því að hafa gert þetta með þessum hætti, því mér hefur fundist prófskjörsbarátta vera komin út í tóma vitleysu. Og það er ekki hægt að treysta á lýðræði þar sem menn eru hugsanlega að kosta til 3-4 milljónum króna fyrir þingsæti.“
Sjálfur segir hann að kostnaður sinn við prófkjörið geti numið 200 þúsund krónum ef allt er tínt til. „Því er þetta ágætis sigur bæði fyrir mig og lýðræðið.“
Ef miðað er við skoðanakannanir og stöðu flokksins í kjördæminu ætti 4. sætið að heita öruggt þingsæti, og það leggst vel í Vilhjálm. „Ég hef horft á þingstörf lengur en margir aðrir sem koma til þingmennsku. Hugsa að ég hafi horft á þau í upp undir fimmtíu ár. Ég kann því eitthvað af hirðsiðum og ætti ekki að verða alveg ónýtur.
Ég kvíði engu að mæta þarna og stend örugglega öðrum vel jafnfætis sem setið hafa þarna inni.“