Vindinn lægir síðdegis og í kvöld

Norðanátt verður ríkjandi á landinu í dag samkvæmt spá Veðurstofu Íslands og vindhraði víða 15-23 metrar á sekúndu. Snjókoma verður á norðanverðu landinu en annars úrkomulítið.

Gert er ráð fyrir að það dragi úr vindi síðdegis og í kvöld, fyrst á vestanverðu landinu. Þá er spáð kólnandi veðri og frosti frá 0-8 gráðum í dag. Þá má búast við mjög hvössum vindhviðum við fjöll.

Fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni að reikna megi með hríðarveðri og slæmu skyggni meira eða minna í allan dag á Norðurlandi eystra og Austurlandi og allt suður um miðja Austfirði.

Þá megi gera ráð fyrir vindhviðum allt að 40 metrum á sekúndu suðaustanlands fram eftir degi og fram á kvöld og þá einkum á leiðinni frá Suðursveit og austur í Berufjörð. Hins vegar lægi heldur í dag á Vestfjörðum og vestantil á Norðurlandi og dragi úr snjókomu en áfram verði þó skafrenningur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert