Byrjað að hvessa hressilega

Mjög er byrjað að hvessa á suðvest­ur­horn­inu en spáð er miklu roki fyr­ir há­degi í dag. Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá slökkviliði höfuðborg­ar­svæðis­ins hef­ur ekki verið leitað til þeirra vegna veðurs enn sem komið er af íbú­um á höfuðborg­ar­svæðinu. For­eldr­ar eru beðnir um að fylgja börn­um sín­um í skóla.

Bú­ast má við mjög hvöss­um vind­hviðum við fjöll fram eft­ir degi, einkum S- og V-lands. Læg­ir mikið síðdeg­is. Spáð er tals­verðri eða mik­illi rign­ingu á SA-verðu land­inu í dag.

Slökkviliðið sendi frá sér viðvör­un í gær­kvöldi þar sem veður­spá­in fyr­ir höfuðborg­ar­svæðið  bend­ir til að börn gætu átt erfitt með að kom­ast til skóla. Grunn­skól­ar verða opn­ir en rösk­un gæti orðið á starfi þeirra. For­eldr­ar eru því beðnir að fylgj­ast vel með veður­spám og til­kynn­ing­um í fjöl­miðlum.

Þetta seg­ir í til­kynn­ingu frá slökkviliði höfuðborg­ar­svæðis­ins en lýst hef­ur verið yfir viðbúnaðarstigi eitt vegna skóla­halds í dag vegna óveðurs­ins sem geng­ur yfir landið.

Lýs­ing á viðbúnaðarstigi eitt:

„Rösk­un get­ur orðið á skóla­starfi vegna veðurs ef starfs­fólk á erfitt með að kom­ast í skóla. Við þess­ar aðstæður eru skól­ar engu að síður opnaðir og taka á móti nem­end­um og þeir geta dvalið þar á meðan skipu­lagt skóla­hald á að fara fram.

Mjög mik­il­vægt er að for­eldr­ar fylgi börn­um til skóla og yf­ir­gefi þau alls ekki fyrr en þau eru í ör­ugg­um hönd­um starfs­fólks. Í upp­hafi skóla­dags get­ur verið að mönn­un skóla sé tak­mörkuð. For­eldr­ar geta þá bú­ist við því að starfs­fólk leiti liðsinn­is þeirra. For­eldr­ar eru hvatt­ir til að taka slík­um beiðnum vel.

Geisi óveður við lok skóla­dags er metið hvort óhætt sé að senda börn­in heim eða hvort ástæða er til að for­eldr­ar sæki börn sín. Þá eru gefn­ar út til­kynn­ing­ar um það, auk þess sem skól­arn­ir leggja sig fram um að hafa sam­band við for­eldra.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert