Gert er ráð fyrir að frumvarp til stjórnarskipunarlaga verði lagt fram á Alþingi þegar þingfundir hefjast að nýju, í næstu viku. Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, segir fund með sérfræðihóp sem fór yfir tillögur stjórnlagaráðs hafa verið afar gagnlegan.
Sérfræðihópurinn skilaði af sér yfirförnum drögum að frumvarpi til stjórnskipunarlaga. Valgerður á von á því að drögin verði lögð fram sem frumvarp á þingi eftir næstu helgi, þegar þingfundir hefjast á ný. Hins vegar verði endanleg ákvörðun tekin um næsta skref á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á morgun.
Eins og mbl.is greindi frá fyrr í kvöld koma fram ýmsar ábendingar í skilabréfi sérfræðihópsins, meðal annars vegna áhrifa tillagna stjórnlagaráðs. Til dæmis geti tillögurnar haft bein áhrif, s.s. ákvæði um mannréttindi, kosningarétt, ríkisborgararétt og rétt til að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslu. „Ljóst er að hér er um að ræða afar þýðingarmikil atriði sem fyrir vikið þarf að meta vandlega áður en breytingar eru gerðar,“ segir í skilabréfinu.
Valgerður segist ekki óttast tafir á meðferð málsins. Þarna eigi sérfræðihópurinn við hugsanlegar breytingar sem gera verði á öðrum lögum áður en frumvarpið um stjórnskipunarlögin verði endanlega samþykkt. Ekki sé búið að ákveða hvaða leið verði farin en hugsanlega verði það í gegnum þingnefndir. „En aðalvinnan fer fram eftir fyrstu umræðu, þegar búið er að mæla fyrir frumvarpinu.“
Hún segir fundinn með sérfræðihópnum í dag hafa verið afar gagnlegan. „Þetta er gífurlega vönduð og góð vinna sem við þarna fáum. Og eftir þessa umræðu sem verið hefur í þjóðfélaginu, ég tala nú ekki um í Háskóla Íslands í síðustu viku, þá er þetta eins og maður sé í öðrum heimi. Ég vona sannarlega að fólk reyni að fara að tala saman. Það vona ég svo sannarlega.“