„Heimilistryggingin er tilgangslaus ef hægt er að afskrifa tjón hjá fólki algjörlega með einu pennastriki,“ segir Baldur Gunnarsson, íbúi í Vogum á Vatnsleysuströnd, en brotist var inn á heimili hans í síðustu viku og ýmsu stolið. Tryggingafélag Baldurs neitar að bæta honum tjónið vegna þess að gluggi á heimili hans var ekki læstur.
Greint var frá innbrotinu á mbl.is fyrir helgi, en innbrotsþjófarnir spenntu upp glugga á svefnherbergi í húsi Baldurs og komust þannig inn.
„Tryggingafélagið neitar að bæta tjónið á þeirri forsendu að glugginn hafi verið lokaður en ekki læstur,“ segir Baldur. Hann segir að á glugganum sé tveggja punkta læsing, hægt sé að opna hann um átta sentímetra, en þá sjái járn til þess að hann opnist ekki meira. „Það á að vera ómögulegt að opna hann. En það er hægt að brjóta allt upp ef fólk er með viljann og verkfærin,“ segir Baldur.
Hann segir að enginn vafi leiki á því að glugginn hafi verið brotinn upp, en vátryggingafélagið beri fyrir sig varúðarreglum í samningnum og í þeim segi að sé gluggi ólæstur sé hægt að takmarka tjón eða falla alveg frá því. „Þeir kalla þetta vítavert kæruleysi, að hafa skilið gluggann eftir lokaðan en ekki læstan, og neita þess vegna að bæta okkur tjónið.“
Baldur hyggst ekki sætta sig við þessa niðurstöðu og segir málinu hvergi nærri lokið af sinni hálfu. „Við ætlum að fara með þetta í hart. Ef tryggingar gilda ekki í svona tilfelli, þá getur fólk bara hætt að vera með heimilistryggingar.“
Baldur segir að meirihluti þess sem var stolið hafi verið munir í eigu barna hans; fartölva og tvær leikjatölvur, auk skartgripaskríns. „Það blóðugasta við þetta allt saman er að þetta tjón lendir meira eða minna allt á krökkunum.“
Lögreglan á Suðurnesjum er með málið í rannsókn og er það enn óupplýst. Hafi einhver upplýsingar sem aðstoðað gætu lögregluna við að upplýsa málið er hinn sami beðinn að hringja í síma 420-1800.