Hnuplað fyrir sex milljarða á ári

Árleg rýrnun í verslunum vegna hnupls er áætluð um sex …
Árleg rýrnun í verslunum vegna hnupls er áætluð um sex milljarðar króna. Við bætist ýmis kostnaður sem verslanir þurfa að taka á sig til að koma í veg fyrir búðahnupl. Rax / Ragnar Axelsson

Árleg rýrn­un í versl­un­um vegna hnupls er áætluð um sex millj­arðar króna. Við bæt­ist ýmis kostnaður sem versl­an­ir þurfa að taka á sig til að koma í veg fyr­ir búðahnupl. Fram­kvæmda­stjóri Hag­kaupa seg­ir sí­fellt aukið við ráðstaf­an­ir vegna þessa, en engu að síður komi það fyr­ir að fólk „hreinsi úr heilu hill­un­um“.

„Við skrá­um öll til­vik hjá okk­ur, en lík­lega er annað eins sem við vit­um ekki af,“ seg­ir Gunn­ar Ingi Sig­urðsson, fram­kvæmda­stjóri Hag­kaupa, sem er einn stærsti aðil­inn í smá­sölu­versl­un hér á landi. 

„Við erum sí­fellt að auka við ráðstaf­an­ir. Fyr­ir nokkru sett­um við ein­stefnu­hlið í all­ar búðir og höf­um fjölgað ör­ygg­is­vörðum. Að auki höf­um við bætt ör­ygg­is­mynda­véla­kerfið hjá okk­ur, sem fólk fylg­ist grannt með og erum með fólk, sumt af því ein­kennisklætt, sem geng­ur um og fylg­ist með. En við lít­um á þetta eft­ir­lit fyrst og fremst sem for­vörn.“

Að sögn Gunn­ars eru öll þjófnaðar­mál kærð til lög­reglu og seg­ir hann þar vera afar gott sam­starf. 

Sex millj­arðar á ári

Í sam­an­tekt Sam­taka versl­un­ar og þjón­ustu sem gerð var fyr­ir nokkr­um vik­um og send inn­an­rík­is­ráðherra kem­ur fram að ár­leg rýrn­um vegna búðaþjófnaða sé áætluð um sex millj­arðar króna. Þess­ar töl­ur eru ekki greind­ar í svo­kallaða innri og ytri þjófnaði, en þeir fyrr­nefndu eiga sér stað þegar starfs­fólk tek­ur hluti ófrjálsri hendi.

Við þetta bæt­ist kostnaður við að halda úti eft­ir­liti, og eru sum stærri fyr­ir­tæki með ör­ygg­is­deild­ir sem hafa það hlut­verk með hönd­um að fylgj­ast með búðahnupli.

Í sam­an­tekt­inni kem­ur fram að versl­un­ar­eig­end­um hef­ur reynst erfitt að fá kröf­ur tekn­ar upp af ákæru­vald­inu. Mál, sem tengj­ast búðaþjófnuðum, séu oft felld niður og seg­ir í sam­an­tekt­inni að kröf­um sé oft mót­mælt af þeim sem ákærðir séu.

Hreinsað úr heilu hill­un­um

Gunn­ar seg­ist hafa séð „ansi svæs­in“ mynd­bönd úr ör­ygg­is­mynda­vél­un­um, þar sem fólk bók­staf­lega „hreinsi úr heilu hill­un­um“ og stingi inn á sig. Þá hafi það gerst, áður en ein­stefnu­hliðin voru sett upp, að fólk hafi ekið full­um búðar­körf­um út úr versl­un­inni, án þess að greiða fyr­ir það sem í körf­unni var.

Hann seg­ir auka­gæslu vera í versl­un­um Hag­kaupa fyr­ir og um jól­in, ekki síst vegna ör­ygg­is viðskipta­vina. „Það hafa komið upp þannig dæmi í jóla­ös­inni að fólk sem ekki er heilsu­hraust þarf á aðstoð að halda.“

Gunn­ar seg­ir ým­is­legt hafa komið fram á und­an­förn­um árum sem tor­veldi búðaþjóf­um iðju sína, þar á meðal séu seg­ul­merk­ing­ar á varn­ingi. „En þetta er enda­laus bar­átta og við get­um ekki slakað á í þess­um efn­um.“

Máttu ekki hengja upp mynd­ir af fingra­löng­um

Til ým­issa ráða hef­ur verið gripið í þeim til­gangi að stemma stigu við búðaþjófnaði. Að sögn Gunn­ars voru eitt sinn hengd­ar upp mynd­ir af þeim, sem oft höfðu verið staðnir að búðaþjófnaði, í einni versl­un Hag­kaupa. Mynd­irn­ar voru hengd­ar upp á baksvæði, þar sem eng­inn nema starfs­fólk hafði aðgang og voru til þess ætlaðar að starfs­fólk hefði gæt­ur á viðkom­andi. „Við vor­um líka að hugsa um ör­yggi starfs­fólks­ins, að það færi ekki að nálg­ast aðila sem eru hættu­leg­ir,“ seg­ir Gunn­ar.

Per­sónu­vernd barst kvört­un um mynd­irn­ar og felldi úr­sk­urð um að miðlun slíkra upp­lýs­inga væri óheim­il. Þær voru því tekn­ar niður.

Stal sjón­varpi og kom aft­ur

Gunn­ar seg­ir búðaþjófa grípa til ým­issa bragða. „Einu sinni kom maður inn í eina versl­un­ina, merkt­ur ein­um af birgj­um okk­ar í bak og fyr­ir og sagðist þurfa að bæta á lag­er versl­un­ar­inn­ar. Eng­inn kannaðist við kauða og í ljós kom að hann hafði kom­ist yfir fatnað sem var merkt­ur til­tek­inni heild­versl­un í þeim til­gangi að fá aðgang að lag­ern­um.“

„Ann­ars er upp­á­halds­sag­an mín af mann­in­um með hækj­urn­ar. Hann setti sjón­varp í kerr­una og fékk síðan starfs­mann til að hjálpa sér með það út og setja það í bíl­inn. Það upp­götvaðist ekki fyrr en síðar að hann hafði ekki greitt fyr­ir tækið. Hann var svo ánægður með ár­ang­ur­inn að hann kom aft­ur og hugðist end­ur­taka leik­inn. En þá náðist hann,“ seg­ir Gunn­ar.

Gunnar Ingi Sigurðsson.
Gunn­ar Ingi Sig­urðsson.
Sviðsett mynd af búðarhnupli.
Sviðsett mynd af búðar­hnupli.
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert