Kemur verst við ófaglærðar konur

Leikskólar í Reykjavík
Leikskólar í Reykjavík Árni Sæberg

Starfsgreinasamband Íslands hefur áhyggjur af þeim áhrifum sem efnahagskreppan hefur haft á íslenskt verkafólk – starfskjör þeirra og réttindi. Þetta á einkum við um ófaglærðar konur sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum við umönnun og ræstingar.

„Niðurskurðaraðgerðir ríkis og sveitarfélaga í kjölfar fjármálakrísunnar hafa skilað sér í auknu atvinnuleysi, lægra starfshlutfalli, launalækkun, auknu vinnuálagi og réttindamissi í kjölfar einkavæðingar opinberrar þjónustu,“ segir á vefsvæði SGS þar sem minnt er á að Evrópsku verkalýðssamtökin ETUC ákváðu að 14. nóvember 2012 sé evrópskur baráttu- og samstöðudagur verkfólks.

Þá er vísað í nýbirta kjara- og þjónustukönnun flóafélaganna (Eflingar, Hlífar og VSFK) þar sem má sjá að kynbundinn launamunur er að aukast og komi það skýrast fram í lágum launum þeirra sem starfa við umönnun og ræstingar.

Til að mótmæla þessari þróun áttu nokkrir forystumenn sambandsins nýlega fund með Sambandi íslenskra sveitarfélaga um útboðsmál og einkavæðingu opinberrar þjónustu. „Þar var þess krafist að sveitarfélög sýndu aukna samfélagslega ábyrgð og tækju til sín þau merki um að niðurskurðurinn bitnaði verst á þeim sem síst skyldi,“ segir SGS.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert