Lítið um efnislegar breytingar

Nefndarmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd nú síðdegis.
Nefndarmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd nú síðdegis. mbl.is/Kristinn

„Ég tel að tillögur Stjórnlagaráðs hafi vel staðist álagspróf,“ segir Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, en nefndin hefur í dag farið yfir vinnu sérfræðingahóps sem rýndi í tillögur Stjórnlagaráðsins. Ráðgert er að fundi ljúki um klukkan átta í kvöld.

„Við erum búin að fá afurð sérfræðinganna og þetta er gríðarlega flott vinna, það sem við erum búin að fara yfir. Hópurinn heldur sig innan þess umboðs sem þau fengu, heldur sig við grundvöll Stjórnlagaráðsins og efnisatriði tillagna þess. Þau gera hins vegar lagatæknilegar breytingar, færa rök fyrir þeim og gera það mjög vel,“ segir Valgerður.

Hún segir að fáeinar efnislegar breytingar séu gerðar, þar sem erfitt geti verið að skilja á milli þeirra og lagatæknilegra. Það sé þó aðallega í bráðabirgðaákvæðum, s.s. það ákvæði að forsetinn megi ekki sitja lengur en í þrjú kjörtímabil.

Þá hafi sérfræðingahópurinn skoðað tillögurnar út frá réttindaákvæðum í núgildandi stjórnarskrá.

Ein stór breyting hefur þó verið gerð á tillögum Stjórnlagaráðs. Lagt er til að þjóðkirkjuákvæðið standi óbreytt frá núgildandi stjórnarskrá. „Það er breyting á tillögum stjórnlagaráðs en í takt við þjóðaratkvæðagreiðsluna,“ segir Valgerður.

Enn á eftir að fara yfir skilabréf sérfræðingahópsins. „Eftir því sem ég skil, þá kemur kannski fram þar það sem þau álíta að sé álitamál, eitthvað sem kannski þurfi að hugsa um. En það er þá vinna fyrir þingið á milli fyrstu og annarrar umræðu um frumvarpið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert