Mega ekki afskrifa lán vegna Eirar

Hjúkrunarheimilið Eir á við mikla fjárhagslega erfiðleika að stríða.
Hjúkrunarheimilið Eir á við mikla fjárhagslega erfiðleika að stríða. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lífeyrissjóðirnir, sem lánað hafa hjúkrunarheimilinu Eir um tvo milljarða króna, telja sig ekki hafa heimild til að taka þátt í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins á þann hátt að það feli í sér afskriftir skulda.

Nokkrir lífeyrissjóðir lánuðu um tvo milljarða til Eirar fyrir nokkrum árum. Friðjón R. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Virðingar, sem er verðbréfafyrirtæki að stærstum hluta í eigu lífeyrissjóðanna, segir að lánið hafi verið til hjúkrunarheimilisins og óverulegur hluti lánanna hafi tengst byggingu öryggisíbúða sem Húsrekstrarsjóður Eirar rekur. Hann segir að mjög trygg veð hafi legið að baki lánunum enda hafi veðsetning félagsins verið innan við 50% af eignum þess þegar lánin voru veitt.

Friðjón segir að lífeyrissjóðirnir hafi ekki lagaheimild til að gefa eftir af kröfum sínum þegar trygg veð séu að baki. Sigurður Rúnar Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Eirar, segir það sama, enda gangi viðræður kröfuhafa um fjárhagslega endurskipulagningu Eirar ekki út á afskriftir lána.

Íbúðalánasjóður hefur heimild til afskrifta með skilyrðum

Íbúðalánasjóður hefur meira svigrúm til að afskrifa skuldir en lífeyrissjóðirnir. Stjórnvöld sendu ríkisstofnunum tilmæli um að taka þátt í Beinu brautinni svokölluðu. Í framhaldi af því lét Íbúðalánasjóður vinna reglur um þátttöku sjóðsins í fjárhagslegri endurskipulagningu. Ráðherra á eftir að staðfesta reglurnar.

Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, sagði að samkvæmt reglunum gæti sjóðurinn verið aðili að fjárhagslegri endurskipulagningu ef allir kröfuhafar tækju þátt í henni. Sjóðurinn hefði ekki heimild til að afskrifa lán ef aðrir kröfuhafar ætluðu ekki samhliða að taka á sig afskriftir. Sigurður sagði að reglurnar gerðu ráð fyrir að reiknað væri svokallað skuldaþol og ekki væri heimilt að lækka skuldir niður fyrir skuldaþol eða virði eigna. Hann sagði t.d. að ef um leigufélag væri að ræða sem væri með slakt tekjustreymi en trausta eignastöðu gæti sú staða komið upp að Íbúðalánasjóður setti það skilyrði fyrir þátttöku að félagið seldi eignir sínar, að hluta eða öllu leyti.

Sigurður sagði að reglurnar gerðu jafnframt ráð fyrir að trúnaður og traust ríkti milli aðila, að lögð væri fram trúverðug viðskiptaáætlun og fleira. Það kæmi því ekki til greina að Íbúðalánasjóður tæki þátt í fjárhagslegri endurskipulagningu lána ef aðrir ætluðust til þess að Íbúðalánasjóður einn tæki á sig afskriftir lána og enn síður ef ef menn hefðu ekki sannfæringu um að það væri verið að leysa vandann til framtíðar.

Allir með trygg veð nema íbúar í öryggisíbúðunum

Fyrst lækkun lána virðist ekki vera inni í myndinni vaknar sú spurning hvað kröfuhafar eru að ræða. Framkvæmdastjóri Eirar vill ekki tjá sig um viðræðurnar enda séu þær á viðkvæmu stigi. Menn séu að leggja sig fram um að leita lausna og tryggja um leið stöðu íbúðaréttarhafa eins og nokkur kostur sé.

Stærstu kröfuhafar Eirar eru Íbúðalánasjóður, sem hefur lánað rúmlega þrjá milljarða til félagsins, lífeyrissjóðirnir, sem lánað hafa rúmlega tvo milljarða, og um 180 aldraðir íbúar í öryggisíbúðum Eirar sem eiga inni íbúarétt að verðmæti um 2,1 milljarður. Lífeyrissjóðirnir og Íbúðalánasjóður eru með veð í hjúkrunarheimilinu en íbúar öryggisíbúðanna eru hins vegar ekki með neinar tryggingar.

Fulltrúaráð Eirar boðað til fundar

Stjórn Eirar kom saman til fundar í morgun. Engar ákvarðanir voru teknar á fundinum, en ákveðið er að boða til fulltrúaráðsfundar nk. föstudag, en í því sitja fulltrúar eigenda félagsins. Á fundinum verður fjárhagsstaða Eirar kynnt og sömuleiðis staða viðræðna við kröfuhafa. Fulltrúaráðið kýs stjórn Eirar, en stjórnin var síðast kjörin í fyrra til fjögurra ára.

Þrýst hefur verið á stjórnina í heild að segja af sér störfum, en ekki liggur fyrir hvort hún muni gera það á föstudaginn. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson sagði af sér sem stjórnarformaður í síðustu viku, en hann situr enn í stjórninni. Magnús L. Sveinsson tók við sem stjórnarformaður.

Sérstök áritun með ársreikningi

Tap Húsrekstrarsjóðs Eirar nemur 620 milljónum í fyrra, en var 278 milljónir árið 2010. Í áritun endurskoðenda með reikningum félagsins segir: „Stjórn og stjórnendur Eirar vinna nú að því að leysa fjármögnunarmál heimilisins og bæta eiginfjárstöðu þess, en óvissa er um niðurstöðu þess. Þrátt fyrir þessa óvissu er framsetning eigna og skulda í efnahagsreikningi byggð á áframhaldandi rekstrarhæfi húsrekstrarsjóðsins. Gangi fyrirætlanir stjórnenda ekki eftir er mögulegt að mat eigna og skulda sé frábrugðið bókfærðu virði þeirra.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert