Sérfræðingahópur sem fór yfir tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá kom auga á fleiri atriði en lagatæknileg sem skoða þarf betur og þá væntanlega við meðferð frumvarpsins á Alþingi. Í skilabréfi hópsins er að finna ýmsar ábendingar, þó aðeins þær sem hópurinn var sammála um.
Meðal annars er spurt hvort tillögurnar samræmist alþjóðlegum viðmiðum og þróun á sviði stjórnskipunarréttar. Í skilabréfinu segir að eðlilegt sé að litið sé til stjórnarskráa annarra ríkja við endurskoðun stjórnarskrár og metið hvort greina megi samnefnara eða þróun í tiltekna átt. „Þau tímamörk og meginviðmið sem sérfræðingahópnum voru sett gera það hins vegar að verkum að ekki var gerð ítarleg rannsókn í þessu efni.“
Þá er spurt hvort tillögurnar séu nægilega vel rökstuddar og hvort áhrif þeirra hafi verið metin. Því hafi til dæmis verið slegið föstu að því þýðingarmeiri sem tillögur eru því meiri rækt eigi að leggja við mat á áhrifum. „Að sumu leyti geymir stjórnarskrá reglur um samspil stofnana ríkisins sem hafa ekki bein áhrif á borgarana. Þær geta samt haft óbein áhrif, t.d. ef stöðugleiki stjórnkerfis eykst eða minnkar. Aðrar tillögur hafa bein áhrif eins og ákvæði um mannréttindi, kosningarétt, ríkisborgararétt og rétt til að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Ljóst er að hér er um að ræða afar þýðingarmikil atriði sem fyrir vikið þarf að meta vandlega áður en breytingar eru gerðar.“
Hópurinn segir að ekki hafi farið fram heildstætt og skipulegt mat á áhrifum tillagnanna í heild og gerir ráð fyrir að slíkt mat muni fara fram á vettvangi Alþingis. Þá bendir hópurinn á tiltekin atriði sem kalla einkum á nánari skoðun.