Íslensk tónlist er jólagjöfin í ár samkvæmt mati dómnefndar á vegum Rannsóknaseturs verslunarinnar. Áætlað er að jólaverslunin aukist um 7% frá síðasta ári. Leiðrétt fyrir verðhækkunum má ætla að hækkunin nemi um 2,5% að raunvirði.
Áætlað er að heildarvelta í smásöluverslun í nóvember og desember verði tæplega 67 milljarðar króna án virðisaukaskatts.
Ætla má að hver Íslendingur verji að meðaltali um 43.000 kr. til innkaupa sem rekja má til árstímans, samkvæmt upplýsingum frá Rannsóknasetri verslunarinnar.
Í nýrri útgáfu Rannsóknaseturs verslunarinnar kemur fram að þegar leitað var eftir hugmyndum að jólagjöfum fyrir þessi jól komu ítrekað fram óskir um að fá „þrettánda mánuðinn“.
„Gamla aukamánuðinn sem algengt var að fyrirtæki greiddu starfsmönnum sínum þegar allt lék í lyndi í efnahagslífinu og smjör draup af hverju strái. Ekki er að efa að þessi búbót í lok ársins er eitt af því sem margir sakna frá því fyrir hrun. Eflaust naut verslun einnig góðs af greiðslu þrettánda mánaðarins með aukinni jólaverslun.
Þótt ekki sé að vænta þrettánda mánaðarins eða mikils jólabónuss frá vinnuveitendum fyrir þessi jól gerir Rannsóknasetur verslunarinnar ráð fyrir aukinni jólaverslun frá síðasta ári. Það mat byggist aðallega á þróun verslunar sem af er þessu ári sem hefur aukist frá síðasta ári. Þá hefur kaupmáttur aukist og væntingar neytenda vaxið.
Rannsóknasetur verslunarinnar áætlar að velta í verslun aukist um 7% í krónum talið en vegna verðhækkana verði þessi aukning um 2,5% að raunvirði. Í þessu felst að hver landsmaður verji að jafnaði rúmlega 43.000 króna vegna árstímans,“ segir í nýju riti Rannsóknaseturs verslunarinnar.
Forsendur eru til að ætla að jólaverslun verði í heildina meiri en fyrir síðustu jól. Útlitið er til dæmis jákvætt fyrir verslun sem selur raftæki, tölvu- og farsímabúnað. Þá nýtur afþreying og menningartengd þjónusta aukinna vinsælda.
Hins vegar er enn hægur vöxtur í varanlegum fjárfestingarvörum eins og húsgögnum og dýrari húsbúnaði.
En sjálfsagt er á mörgum heimilum orðin uppsöfnuð þörf fyrir endurnýjun á slíkum hlutum. Það er mat Rannsóknasetursins að neytendur hafi orðið hagsýnni í innkaupum og um leið kröfuharðir á að kaupa gæði og vandaðar vörur. Þannig velji fólk frekar gæði en magn fyrir þessi jól, segir enn fremur í ritinu.