Langir biðlistar eru á göngudeild geðsviðs Landspítalans og þarf fólk að bíða allt upp í fjóra mánuði eftir aðstoð. Lengst er biðin eftir einstaklingsviðtölum vegna kvíða og þunglyndis. Að sögn framkvæmdastjóra Sálfræðingafélags Íslands er þetta mikið til fólk sem hefur verið vísað frá heilsugæslunni.
„Þetta er fólk með algengustu geðrænu vandamálin eins og kvíðaraskanir, þunglyndi og depurð. Það eru lítil sem engin úrræði fyrir þetta fólk á heilsugæslunni og því er vísað á göngudeildina. Sálfræðimeðferð ætti að vera fyrsta meðferð við flestum tegundum þunglyndis og kvíða, eins og fram kemur í klínískum leiðbeiningum en ekki lyfjameðferð,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Sálfræðingafélags Íslands.
Hún segir biðina hafa misjöfn áhrif á fólk. „Í mörgum tilvikum versnar því. Stundum lagast ástandið hjá einhverjum, aðrir geta leitað annað, til dæmis til sjálfstætt starfandi sálfræðinga. En það er dýrt, því sá kostnaður fellur eingöngu á einstaklinginn, sálfræðiþjónusta er líklega eina heilbrigðisþjónustan þar sem almenningur nýtur engrar niðurgreiðslu frá Sjúkratryggingum. Við eigum nú met í notkun þunglyndislyfja og það er örugglega vegna þess að fá önnur úrræði eru í boði. Síðan geta einhverjir komið inn í heilbrigðiskerfið seinna og þá verið miklu veikari.“
Að sögn Höllu eru margar ástæður fyrir þessari lengingu biðlistanna, ekki síst mönnun. „Landspítalinn hefur verið undir gríðarlegri niðurskurðarkröfu í mörg ár,“ segir Halla.
En hvernig þyrfti ástandið að vera þannig að það væri ásættanlegt? „Að fólk fengi lausn á sínum vanda á heilsugæslunni, burtséð frá því hvort hann sé geðrænn eða líkamlegur. Fyrir almenning skiptir ekki öllu máli hvar úrræðin eru veitt, á heilsugæslunni, hjá sjálfstætt starfandi sálfræðingum eða á geðdeild, heldur að þau séu í boði. Þau þyrftu að vera í boði víðar, nú þegar eru sálfræðingar starfandi á nokkrum heilsugæslustöðvum á landinu, en þeir sinna fyrst og fremst börnum. Það er engan veginn nóg, því að svo stór hluti af þeim vanda sem kemur inn á heilsugæsluna er geðrænn.“