Vilborg bíður í Síle

Vilborg Arna Gissurardóttir
Vilborg Arna Gissurardóttir mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Vilborg Arna Gissurardóttir, sem stefnir að því, fyrst íslenskra kvenna, að ganga á suðurpólinn, bíður enn í Punta Arena í Síle eftir því að geta flogið á upphafsstað göngunnar.

Sökum óhagstæðs veðurs og lendingarskilyrða á jöklinum hefur ekki verið hægt að lenda þar en von er til þess að skilyrðin batni á næstu dögum. Miðað við aðstæður í gærkvöldi lítur ekki vel út með aðstæður næstu daga en Vilborg er þolinmóð og bíður róleg, segir í tilkynningu frá þeim sem standa á bak við ferðalag hennar.

Um leið og aðstæður gefa tilefni til verður flogið frá Punta til Union Glacier en þar eru tjaldbúðir ALE (Antarctic Logistics and Expeditions) á suðurskautinu. Þar þarf Vilborg að staldra við í a.m.k. einn dag áður en lengra er haldið. Vilborg nýtur stuðnings frá ALE við leiðangurinn og verður hún í sambandi við tjaldbúðirnar a.m.k. einu sinni á sólarhring meðan á ferð hennar um suðurpólinn stendur.

Í búðunum mun Vilborg hitta lækni, veðurfræðing og samskiptafræðing áður en hún leggur í ferðina, auk þess að fá nýjar upplýsingar um aðstæður á áætlaðri leið um suðurpólinn.

Þegar aðstæður gefa tilefni til á næstu dögum verður flogið með Vilborgu til Hercules Inlet, sem er jökull út við ströndina, en þar er upphafsstaður göngu hennar. Áætlað er að ferð Vilborgar frá Hercues Inlet á syðsta punkt jarðar taki um 50 daga og að á hverjum degi gangi hún um 22 km að meðaltali. Hún mun draga á eftir sér tvo sleða með nauðsynlegum búnaði til fararinnar sem vega í byrjun um 100 kg.

Vilborg Arna fer þessa göngu í þágu Lífs, styrktarfélags kvennadeildar Landspítalans. Hægt er að fylgjast með Vilborgu hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert