Skráð atvinnuleysi í október 2012 var 5,2%, en að meðaltali voru 8.187 atvinnulausir í október og fjölgaði atvinnulausum um 305 að meðaltali frá september eða um 0,3 prósentustig. Meðalatvinnuleysi tímabilið janúar til október á þessu ári var 5,8%, en 7,5% á sama tímabili 2011.
Körlum á atvinnuleysisskrá fjölgaði um 199 að meðaltali og konum um 106. Atvinnulausum fjölgaði um 106 á höfuðborgarsvæðinu en um 199 á landsbyggðinni. Atvinnuleysið var 5,8% á höfuðborgarsvæðinu og fór úr 5,6% í september. Á landsbyggðinni var atvinnuleysið 4,1% og fór úr 3,7% í september.
Einungis 1,4% atvinnuleysi á Norðurlandi vestra
Mest var atvinnuleysið á Suðurnesjum 8,9% og fór úr 7,8% í september. Minnst var atvinnuleysið á Norðurlandi vestra, 1,4%. Atvinnuleysið var 4,7% meðal karla og fór úr 4,4% í september og 5,8% meðal kvenna og fór úr 5,4% í september.
Alls voru 8.592 manns atvinnulausir í lok október. Þeir sem voru atvinnulausir að fullu voru hins vegar 7.711. Fjölgun atvinnulausra í lok októbermánaðar frá lokum september nam 404. Um 267 fleiri karlar voru á skrá í lok október en 137 fleiri konur en í septemberlok. Á landsbyggðinni fjölgaði um 266 en um 138 á höfuðborgarsvæðinu.
1.248 ungmenni atvinnulaus
Fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir lengur en 6 mánuði samfellt er nú 4.793 og hefur fækkað um 90 frá lokum september og eru um 55,8% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá í október. Fjöldi þeirra sem verið hafa atvinnulausir í meira en eitt ár var 3.222 í októberlok og fækkaði um 48 frá lokum september.
Alls voru 1.248 á aldrinum 16‐24 ára atvinnulausir í lok október eða um 14,5% allra atvinnulausra í október. Í lok október 2011 var fjöldi atvinnulausra ungmenna 1.884 og hefur því fækkað um 636 milli ára í þessum aldurshópi.
Búist við auknu atvinnuleysi í nóvember
Alls voru 1.608 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok október, þar af 931 Pólverji eða um 58% þeirra útlendinga sem voru á skrá í lok mánaðarins. Flestir atvinnulausra erlendra ríkisborgara voru starfandi í gistingar- og veitingastarfsemi, 230. Yfirleitt eykst atvinnuleysi í nóvember vegna minnkandi umsvifa á vinnumarkaði þegar kemur fram á haust og vetur. Í nóvember 2011 var atvinnuleysi 7,1% en 6,8% í október 2011. Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að atvinnuleysi í nóvember aukist með svipuðum hætti í ár og verði á bilinu 5,2‐5,5%.