Menntunarstig á Íslandi er lágt og það er þjóðsaga að Íslendingar séu upp til hópa vel menntaðir. Hlutfall þeirra sem eru á virkum vinnualdri og hefur einungis lokið grunnmenntun er talsvert hærra hér en í öðrum Evrópulöndum. Þessu þarf að breyta.
Rúmur milljarður myndi sparast á hverju ári yrði námstími styttur.
Þetta er meðal þess sem kom fram á blaðamannafundi starfshóps um samþættingu mennta- og atvinnumála, sem settur var á stofn af forsætisráðuneytinu. Á fundinum voru kynntar breyttar áherslur í menntamálum, samþættingu menntastefnu og atvinnustefnu og eflingu verk- og tæknináms.
Skúli Helgason þingmaður og formaður starfshópsins sagði að brottfall nemenda úr íslenskum framhaldsskólum væri einstaklega mikið hér á landi. „Innan við helmingur nemenda sem hefja nám á framhaldsskólastigi ljúka því á réttum tíma. Við höfum ekki fundið dæmi um að brotthvarf sé meira í neinu Evrópulandi. Okkur hefur ekki tekist að koma unga fólkinu okkar í gegnum menntakerfið þannig að það hafi þær bjargir sem þarf,“ sagði Skúli.
Hann sagði tíma til kominn til breytinga og að gera menntakerfið „nemendavænna“.
„Við leggjum áherslu á að stjórnvöld sýni meiri metnað til þess að þeir nemendur sem hefja nám í framhaldsskólum ljúki námi,“ sagði Skúli. „Við viljum að það sé alveg skýrt að það sé markmið menntakerfisins að allir nemendur ljúki námi. Í þessu samhengi er mikilvægt að huga að námstímanum, sem hér á landi er sá lengsti sem þekkist í alþjóðlegum samanburði.“
Skúli sagði að mikilvægt væri að stytta samanlagðan námstíma grunn- og framhaldsskóla úr 14 árum í 13 og síðan í 12 ár.
„Við verðum að vera raunsæ um að slík breyting verður ekki gerð nema í góðu samstarfi við það fólk sem starfar í skólakerfinu,“ sagði Skúli og sagði að við þetta myndi sparast um 1 - 1 1/2 milljarður á ári. Það fé væri hægt að nota til þess að bæta aðbúnað í skólum og jafnvel hækka laun starfsfólks.
„Hvernig er hægt að takast á við brottfall?“ spurði Skúli. Hann sagði að takast yrði á við það strax í grunnskólanum. Sterk merki væri um að brottfallsnemendum gengi illa strax í grunnskóla. „Við leggjum því til að þær aðstæður verði skapaðar að allir skólar geti skapað nemendum umhverfi til að stunda einstaklingsmiðað nám; að nálgast nemendur út frá því hvað þeir gera best og í hverju þeir eru góðir.“