„Það var mjög auðvelt að komast í tæri við íslenskar vændiskonur. Miklu erfiðara var hins vegar að ná þeim í viðtal. Það kom mér í sjálfu sér ekki á óvart, þar sem ég hef áður gert fréttir um þessi mál, en þó verður að segjast að vændi er mun algengara á Íslandi en flestir gera sér grein fyrir. Það sést kannski best á þeim gífurlega fjölda sem áttu viðskipti við Catalinu, þar sem hún var eina þekkta nafnið í þessum heimi á Íslandi. Annars virðist stór hluti íslenskra vændiskvenna vera að fjármagna neyslu og þegar maður fer að skoða þennan heim sér maður margt miður fallegt og hreinlega ömurlegt,“ segir Sölvi Tryggvason sjónvarpsmaður sem vinnur nú að fréttaskýringarþáttum, Málið, sem verða á dagskrá SkjásEins í janúar um málefni sem brenna á þjóðinni.
„Við erum að vinna að nokkrum þáttum núna, sumt vil ég ekki gefa upp, en get þó sagt að einn snýr að undirheimunum á Íslandi og eins erum við að vinna að ítarlegum fréttaskýringaþætti um einelti. Annars eru allar ábendingar vel þegnar og mega sendast á solvi@skjarinn.is,“ segir Sölvi.
Málið: Vændi from Daniel Bjarnason on Vimeo.