Sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar Íslands hafa miklar efasemdir um boðaðar aðgerðir Skógræktar ríkisins til að hefja útbreiðslu lúpínu í Þórsmörk. Telja þeir aðgerðirnar vanhugsaðar og að þær komi til með að mistakast.
Skógrækt ríkisins hyggst dreifa áburði á lúpínubreiður í Þórsmörk til að flýta fyrir hnignun þeirra og stuðla þannig að uppvexti birkiskógar og annars gróðurs.
Sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar telja að þetta muni mistakast og afleiðingin verði í raun sú að lúpína muni dreifast um víðáttumikið, skóglaust land á Þórsmerkursvæðinu. Þar muni hún leika lykilhlutverk í gróðurframvindu og breyta náttúrufari til langframa. Jafnframt muni hún með tímanum breiðast út neðan Merkurinnar og gerbreyta þar landi.
Farið er yfir málið á vef Náttúrufræðistofnunar. Þar segir að aðgerð Skógræktarinnar sé mjög vanhugsuð. „Þekkt er að í lúpínubreiðum er mikil frjósemi í jarðvegi. Því er líklegt að dreifing áburðar hafi þar takmörkuð áhrif. Þessu má líkja við að bera vatn í bakkafullan lækinn.“
Þá er rifjað upp að Landgræðslan reyndi eyða lúpínu í Þórsmörk með Roundup illgresiseyði á takmörkuðu svæði fyrir nokkrum árum. „Þessi aðgerð fór mjög fyrir brjóstið á forsvarsmönnum Skógræktarinnar eins og þekkt er og lögðust þeir þvert gegn frekari aðgerðum, bönnuðu þær og komu í veg fyrir að þeim yrði fylgt eftir. Dæmdu þeir aðgerðirnar út af borðinu og skelltu skollaeyrum við tilraunum sem gerðar höfðu verið í Gunnarsholti með eyðingu lúpínu. Þær sýndu að hægt er að halda henni í skefjum með Roundup án þess að drepa staðargróður.“
Skógræktarmenn hafa eindregið lagst gegn notkun efnisins til eyðingar lúpínu. „Skýtur það skökku við þar sem þeir hafa sjálfir beitt Roundup við skógrækt á gras-og mýrlendi. Þar eru dæmi um miklu stórfelldari úðun en nokkurn tíma í Þórsmörk.“
Sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar segja ennfremur að það virðist sem aðgerðir Skógræktarinnar séu í raun fyrirsláttur og dregnar fram til þess að rugla fólk í ríminu. „Í þeim birtist sú yfirlýsta stefna Skógræktarinnar að fátt sé athugavert við dreifingu framandi tegunda innan þjóðgarða landsins og annarra svæða sem búa yfir mikilfenglegu náttúrufari. Hvergi skal hvikað frá þeirri stefnu, hér skal skapa „eins konar Alaska“.“