Skattar lækkaðir í Kópavogi

Skattar lækka í Kópavogi samkvæmt tillögu meirihlutans.
Skattar lækka í Kópavogi samkvæmt tillögu meirihlutans. mbl.is/Árni Sæberg

Fast­eigna­gjöld af íbúðar- og at­vinnu­hús­næði, vatns­skatt­ur og sorp­hirðugjöld lækka í Kópa­vogi í upp­hafi næsta árs, sam­kvæmt til­lögu meiri­hluta bæj­ar­stjórn­ar að fjár­hags­áætl­un fyr­ir árið 2013. Til­lag­an var lögð fram til fyrri umræðu á bæj­ar­stjórn­ar­fundi síðdeg­is í dag.

Ármann Kr. Ólafs­son bæj­ar­stjóri seg­ir að með fjár­hags­áætl­un­inni sé tónn­inn gef­inn og fyrstu skref­in tek­in að lækk­un á skatt­byrði íbúa bæj­ar­ins. „Er þetta í sam­ræmi við stefnu­yf­ir­lýs­ingu meiri­hlut­ans um að fast­eigna­gjöld á íbúðir og fyr­ir­tæki og önn­ur gjöld verði end­ur­skoðuð með lækk­un í huga,“ seg­ir hann í frétta­til­kynn­ingu.

Áhersla er lögð á lækk­un skulda og reiknað með að inn á þær verði greidd­ir rúm­ir tveir millj­arðar á næsta ári. Gert er ráð fyr­ir að skulda­hlut­fall Kópa­vogs­bæj­ar, þ.e.a.s. skuld­ir sveit­ar­fé­lags­ins deilt með rekstr­ar­tekj­um, lækki úr 244% niður í 206%. Sam­kvæmt lög­um eiga sveit­ar­fé­lög að vera búin að ná þessu hlut­falli niður fyr­ir 150% fyr­ir 1. janú­ar 2023. Ef fram held­ur sem horf­ir nær Kópa­vogs­bær þessu viðmiði í síðasta lagi árið 2018.

Rekstr­araf­gang­ur sam­stæðu Kópa­vogs­bæj­ar verður 126 millj­ón­ir króna á næsta ári sam­kvæmt áætl­un­inni og veltu­fé frá rekstri 2.860 millj­ón­ir. Af fram­kvæmd­um á ár­inu má nefna bygg­ingu nýs 870 fer­metra leik­skóla í Aust­ur­kór, sem tek­inn verður í notk­un í árs­byrj­un 2014. Kostnaður við bygg­ingu leik­skól­ans nem­ur tæp­um 307 millj­ón­um króna.

Mark­miðum fjár­hags­áætl­un­ar­inn­ar á að ná með þéttu aðhaldi í rekstri bæj­ar­ins án þess að beita niður­skurði. Þjón­ustu­gjöld eru lát­in fylgja verðlagi. Lögð er áhersla á að veita öfl­uga grunnþjón­ustu á öll­um sviðum, svo sem í leik­skól­um, grunn­skól­um og fé­lagsþjón­ustu. Niður­greiðsla bæj­ar­ins til íþróttaiðkun­ar barna og ung­linga hækk­ar um 12,5%.

„Fjár­hags­áætl­un­in sýn­ir að Kópa­vogs­bæ er að tak­ast að vinna hratt og vel úr þeim vanda sem skapaðist í kjöl­far efna­hags­áfalls­ins árið 2008 og mun bet­ur held­ur en raun­sæ­ir menn þorðu að vona en þar kem­ur til góður rekst­ur og sala lóða,“ seg­ir Ármann Kr. Ólafs­son í frétta­til­kynn­ingu.

Breyt­ing gjalda:

  • Fast­eigna­skatt­ur á íbúðar­hús­næði lækk­ar úr 0,32% í 0,29% (um 9,4)
  • Lóðarleiga at­vinnu­hús­næðis lækk­ar úr 214,97 í 190,00 kr/​m² (um 11,6%)
  • Fast­eigna­skatt­ur á at­vinnu­hús­næði lækk­ar úr 1,65% í 1,64% (um 0,6%)
  • Fast­eigna­skatt­ur á hest­hús lækk­ar úr 0,625% í 0,59% (um 5,6%)
  • Vatns­skatt­ur lækk­ar úr 0,135% í 0,12% (um 11,1%)
  • Sorp­hirðugjald lækk­ar úr 23.300 kr. í 21.000 kr. (um 9,9%)
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert