Stuðningur við skulduga hópa umtalsverður

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Ómar

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, segir að í fjárlögum næsta árs áformi stjórnvöld áfram mjög mikinn stuðning við skuldugustu fjölskyldurnar. Hann segir að stuðningurinn sé umtalsverður, eða á þriðja tug milljarða í vaxta- og barnabætur. Reynt sé að beina stuðningnum til þeirra hópa sem skuldi mest.

Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Steingrím hvort ríkisstjórnin hefði eitthvað á prjónunum til að koma til móts við þá sem væru að sligast vegna verðtryggðra lána.

Bjarni benti á að Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, hefði sagt í viðtali í gær, að staðan í gengislánamálum kallaði á aðgerðir vegna verðtryggðra lána. „Kallaði á aðgerðir fyrir fólk sem er með verðtryggð lán og er að sligast, eins og formaðurinn sagði.“

Þá sagði Bjarni að bakgrunnur ummæla Helga sé sá „að staða þeirra sem eru með gengistryggð lán, sem nú hafa verið dæmd ólögmæt, borið saman við þá sem voru með verðtryggð lán, er mjög ólík,“ sagði Bjarni.

„Þarna er komið að kaflaskilum þegar formaður í berandi nefnd í þinginu telur óumflýjanlegt að grípa til aðgerða,“ sagði Bjarni.

„Greiningar hafa sýnt það, að þeir sem eru í mestum erfiðleikum eru ungar barnafjölskyldur með þungar skuldir. Og þar af leiðandi erum við að auka umtalsvert stuðninginn við þær fjölskyldur. Með tveimur og hálfum milljarði í viðbót inn í barnabótakerfið, því að greiningar hafa sýnt það, bæði Seðlabankans og háskólans og fleiri aðila, að þær eiga að breyttu breytanda erfiðast með að ráða við þessa byrði. Þær eru yngstar, þær eru með yngstu lánin og hæstu lánin og þær eru með börn sem verið er að ala upp,“ sagði Steingrímur.

Hann segir ennfremur að ef niðurstaðan verði sú sem stefni í með gjaldeyrislánin „þá er að myndast þarna talsvert misræmi milli þeirra sem tóku verðtryggðu lánin innanlands og hinna sem fá dæmda lækkun höfuðstóls og jafnvel vaxta líka, í gegnum dómstólana. Það er hins vegar hægara sagt en gert að leiðrétta það. Ég spyr á móti hverjar eru tillögur formanns Sjálfstæðisflokksins í þeim efnum?“

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert