„Tími til kominn að skipta um forrit“

Frá blaðamannafundi starfshópsins. Skúli Helgason þingmaður, sem sést hér til …
Frá blaðamannafundi starfshópsins. Skúli Helgason þingmaður, sem sést hér til vinstri á myndinni, er formaður hópsins. mbl.is/Golli

Ekki liggur fyrir hversu mikill kostnaður hlytist af, yrðu tillögur starfshóps um samþættingu mennta- og atvinnumála að veruleika. Í tillögunum, sem kynntar voru á blaðamannafundi í dag, er meðal annars lagt til að allir nemendur ljúki a.m.k. framhaldsskólanámi og að námstími í grunn- og framhaldsskólum verði styttur. Skortur á tæknimenntuðu fólki tefur fyrir endurreisn Íslands.

Hópurinn var settur á stofn að frumkvæði forsætisráðuneytisins. „Ég held að það sé kominn tími til að við skiptum um forrit varðandi það hvernig við hugsum um menntakerfið,“ sagði Skúli Helgason, formaður hópsins.

Í skýrslu hópsins segir að ljóst sé að stór hópur velji ekki nám við hæfi. Sterk rök séu fyrir því að íslenskt skólakerfi einkennist um of af mikilli áherslu á bóknám en minni áhersla sé á verklegt nám, „að virkja nemendur til fjölbreytilegra viðfangsefna og að hagnýta tölvutækni og nýja miðla í skólastofunni,“ eins og segir í skýrslunni. Við blasi að menntakerfið aðlagi nemendur um of að fyrirfram mótuðu skipulagi skóla.

Þröskuldur á leið upp úr kreppu

Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík og einn nefndarmanna, sagði að virk tengsl menntunar og atvinnu hlytu að vera mikið hagsmunamál í hverju samfélagi. Misræmi væri á milli þarfa atvinnulífsins og þess vinnuafls sem menntakerfið á Íslandi útskrifar. Mikill skortur væri á vinnuafli með verk- og tæknimenntun. „Þessi skortur er þröskuldur á þeirri leið að komast upp úr kreppunni,“ sagði Ari.

Þessar hugmyndir hafa ekki verið útfærðar nákvæmlega, en þær voru kynntar á ríkisstjórnarfundi í morgun og þar var samþykkt að fela mennta- og menningarmálaráðuneytinu, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu og velferðarráðuneytinu að fara nánar yfir tillögurnar.

Spurður um hvort kostnaðaráætlun lægi fyrir, sagði Skúli svo ekki vera. En hún yrði væntanlega unnin af viðkomandi ráðuneytum.

Frétt mbl.is: Breytinga að vænta í menntakerfinu

Frétt mbl.is: Nauðsynlegt að efla verk- og tækninám

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert