Trúlausir þröngva afstöðu sinni á börn

Hvítasunnukirkjan Fíladelfía.
Hvítasunnukirkjan Fíladelfía. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Verði frumvarp innanríkisráðherra um jafna stöðu trú- og lífsskoðunarfélaga að lögum getur komið upp sú staða að trúlaust foreldri þröngvi afstöðu sinni á barn sitt í óþökk hins foreldrisins. Þetta segir prestur Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu í Reykjavík.

Vörður Leví Traustason, prestur Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu, ritar umsögn um frumvarp Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra. Þar er meðal annars gagnrýnd sú nýbreytni, að ef foreldrar komi sér ekki saman um hvaða trúfélagi barn þeirra skuli tilheyra verði staða þess ótilgreind.

„Erfitt er að sjá annað en að þá sé barnið í reynd skráð utan trúfélaga,“ segir í umsögninni. „Slík niðurstaða hlýtur að vera ófullnægjandi í tilviki þar sem barn á eitt foreldri sem stendur utan trúfélags og hitt foreldrið sem sé hluti af trúfélagi. Í þeim tilvikum getur það foreldrið sem stendur utan trúfélags á óbeinan hátt þröngvað afstöðu sinni á barn sitt í óþökk hins foreldrisins.“

Vörður Leví segir nauðsynlegt að koma í veg fyrir svo ósanngjarna stöðu og segir eðlilegri niðurstöðu að nota sömu leið og farin er í lögum um mannanöfn, þ.e. að foreldrar fái hálft ár til að gefa barni sínu nafn en að þeim tíma liðnum er heimilt að beita foreldra dagsektum. „Í frumvarpi þar sem verið er að jafna stöðu trúfélaga og lífsskoðunarfélaga verður ekki annað séð en að þetta ákvæði vinni markvisst að því að koma börnum úr trúfélögum.“

Þá segir Vörður Leví að það sé ótækt barnsins vegna, að það búi við ótilgreinda stöðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert