ÖBÍ „stefnir“ stjórnvöldum

Öryrkjabandalag Íslands skipulagði táknrænan gjörning við Alþingishúsið í dag þar sem formaður bandalagsins las forystu ríkisstjórnarflokkanna stefnu bandalagsins á hendur stjórnvöldum fyrir að virða ekki 69. grein laga um almannatryggingar og hneppa með því stóran hóp fólks í fjötra fátæktar. Til að undirstrika að alvöru málsins var Alþingi skilgreint sem brotavettvangur og svæðið fyrir framan alþingishúsið afmarkað með borðum sem báru áletrunina „Varúð - hér er fátækt leidd í lög“.

Lífeyrisþegar á Íslandi krefjast þess að lífeyrir þeirra verði leiðréttur afturvirkt til ársins 2008, líkt og gert var við laun æðstu embættismanna ríkisins hjá kjararáði í október 2011. Þess er krafist að allar skerðingar á réttindum lífeyrisþega sem komið hafa til framkvæmda frá árinu 2008 til dagsins í dag verði leiðréttar.

Í stefnunni sem Öryrkjabandalagið setur fram fyrir hönd allra lífeyrisþega á Íslandi kemur meðal annars fram að allt frá efnahagshruninu 2008 hafa stjórnvöld numið árlega úr gildi 69. grein laga um bætur almannatrygginga sem á að tryggja að lífeyrisgreiðslur haldi verðgildi sínu. Þessi grein var á sínum tíma leidd í lög til að verja lífeyrisþega fyrir aðstæðum eins og þeim sem sköpuðust í efnahagshruninu. Vegna þessara aðgerða stjórnvalda hafa bæturnar rýrnað að verðgildi á sama tíma og greiðsluþátttaka í heilbrigðiskerfinu hefur stóraukist.

Lífeyrisþegar urðu fyrir enn meiri skerðingum þegar tekjutengingar jukust umtalsvert um mitt ár 2009 en þær skertu kjör lífeyrisþega til muna og hafa ekki verið dregnar til baka þrátt fyrir ítrekuð mótmæli Öryrkjabandalagsins og fleiri hagsmunaaðila. Miklar tekjutengingar gera fólki ókleift að bæta fjárhagslega stöðu sína og halda fólki í fátæktargildru, segir í tilkynningu.

Svikin loforð

Lífeyrisþegar voru þeir fyrstu sem urðu fyrir kjaraskerðingu við bankahrunið 2008. Þá var því lofað sérstaklega að þeir fengju fyrstir leiðréttingu sinna mála þegar fjárhagsstaða ríkissjóðs batnaði. Þá var talað um þriggja ára tímabil sem nú er liðið. Ekkert bólar á leiðréttingum í þeim efnum af hálfu stjórnvalda þrátt fyrir yfirlýsingar um að hagur ríkisins sé að vænkast og kjör annarra hópa eins og þingmanna, ráðherra og annarra sem heyra undir kjararáð hafi verið leiðrétt.

Í stefnu Öryrkjabandalagsins á hendur stjórnvöldum er þess krafist að stjórnvöld skili öryrkjum sem fyrst því sem þeim ber og að örorkubætur hækki 1. janúar 2013 að lágmarki til samræmis við lög um almannatryggingar og taki mið af þeirri hækkun sem orðið hefur á vísitölu neysluverðs frá janúar 2008.  Minnt er á að í 28. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks viðurkenni aðildarríkin rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þeirra til viðunandi lífskjara og til sífellt batnandi lífsskilyrða. Því beri stjórnvöldum að forgangsraða í þágu þeirra sem þurfa að treysta á velferðarkerfið.

Formaður Öryrkjabandalagsins afhentir forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar stefnuna.
Formaður Öryrkjabandalagsins afhentir forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar stefnuna. mbl.is/Ómar
Öryrkjar frömdu gjörning á Austurvelli.
Öryrkjar frömdu gjörning á Austurvelli. mbl.is/Ómar
Öryrkjar komu saman við Alþingishúsið.
Öryrkjar komu saman við Alþingishúsið. mbl.is/Ómar
Lögregluborði var strengdur utan um Alþingishúsið.
Lögregluborði var strengdur utan um Alþingishúsið. mbl.is/Ómar
mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert