Þeim heimilum í Breiðholti sem fá fjárhagsaðstoð hefur fjölgað um rúmlega 100% frá hruni. Ýmis ný félagsleg úrræði hafa verið tekin þar upp á undanförnum árum.
Þetta sagði Hákon Sigursteinsson, deildarstjóri og sálfræðingur hjá Þjónustumiðstöð Breiðholts á fundi samtakanna Náum áttum í morgun. Þar var fjallað um hvernig samfélagið geti stutt við börn í erfiðum aðstæðum.
Málum 27% leikskólabarna og 23% leikskólabarna í hverfinu var vísað til þjónustumiðstöðvarinnar á síðasta skólaári.
Hákon sagði að vinnulagi hefði verið breytt á undanförnum árum. Ráðgjafar kæmu fyrr að málum, fylgdu þeim betur eftir og lengur. Ýmis ný úrræði hafa verið tekin upp, þar á meðal er farið heim til unglinga í efstu bekkjum grunnskóla á morgnana, þau vakin og séð til þess að þau fari í skólann. „Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að krakkar eru ekki að mæta í skólann, t.d. neysla eða þunglyndi foreldra,“ sagði Hákon.
Annað úrræði nefnist „Ráðgjafinn heim“, en þar er farið inn á heimili barna með ADHD og foreldrum hjálpað og þeim kenndar aðferðir við uppeldið.
Hákon sagði að samstarf Þjónustumiðstöðvarinnar við ýmsa aðila í heilbrigðiskerfinu hefði aukist undanfarin ár, þar á meðal við heilsugæsluna og BUGL. Hann sagði að styrkja þyrfti umhverfi þeirra barna sem eiga í erfiðleikum og að breyta þyrfti vinnuaðferðum barnaverndar. „Það er mín reynsla að það þurfi meira samstarf,“ sagði Hákon.
Náum áttum er opinn samstarfshópur um fræðslu- og forvarnarmál. Meðal þeirra sem eiga aðild að hópnum eru Embætti landlæknis, Barnaverndarstofa, Reykjavíkurborg, Þjóðkirkjan og Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu.