„Því skyldi kjarna málsins sleppt í allri þessari gífurlegu umræðu um rammaáætlun um virkjunarstaði – á þingi, í blöðum og í samfélaginu? Í öllu rifrildinu er síður en svo ljóst hvort og hvenær menn eru að tala um vatnsaflsvirkjun eða jarðvarmavirkjun, þ.e. hvers eðlis sú virkjun er sem setja skal á framkvæmdastig eða færa með lögum á biðlista“, segir Elín Pálmadóttir, blaðamaður, í grein í Morgunblaðinu í dag. Þótt fólk virðist nú loks vera að átta sig á að jarðvarminn í landinu sé takmörkuð auðlind, heyrist lítið um að tryggja að hann nýtist framtíðarkynslóðum um alla eilífð, segir Elín.
Þá segir Elín m.a. í grein sinni: „Er það ekki einmitt núna, þessa dagana, sem verið er í þinginu að taka ákvörðun um hvort eigi að láta þetta vatnsafl fara „á biðlista“ um ófyrirsjáanlegan tíma, en snúa sér að stórvirkjun á jarðvarma til raforkuframleiðslu sem puðrar til hliðar öllu þessu afli ónýttu út í loftið? Síðan þingmenn tóku að krukka í margra ára niðurstöðu sérfræðinganna í rammaáætlun hefi ég ekki heyrt þetta sett á oddinn. Kannski of langtímahugsað? Hvað eiga þessir vesalings þingmenn reyndar að gera, rígbundnir í þröngu kjósendahaftinu?“