Opinber fjárfesting hefur dregist saman um 58% undangengin fjögur ár og stefnir í að samdráttur ársins nemi tæpum 13%. Fjárfesting hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu hefur lækkað úr 4,1% árið 2008 í 1,8% í ár og hefur aldrei verið svo lítil áður.
Landspítalinn ekki byggður á næstu árum
Í spánni er gert ráð fyrir að fjárfesting hins opinbera verði heldur minni en áætlað var í síðustu spá bankans. Skýrist það einkum af því að nú er gengið út frá því að ekki verði af byggingu nýs Landspítala á spátímabilinu. Óvissa um byggingu spítalans hefur aukist nokkuð að undanförnu en samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar á að taka ákvörðun um áformin fyrir áramót.
Enn gert ráð fyrir Vaðlaheiðargöngum
„Ljóst er að mun erfiðara verður um vik að hrinda áformunum í framkvæmd ef ríkisvaldið þarf sjálft að fjármagna kostnað byggingarinnar. Svo umfangsmikil fjárfesting myndi, að öðru óbreyttu, raska verulega langtímaáætlun um jöfnuð í opinberum fjármálum.
Hins vegar er enn gert ráð fyrir að Vaðlaheiðargöng verði að veruleika en hluti fjárfestingar vegna þeirra tefst vegna seinkunar á undirritun samninga og dregur það úr fjárfestingu í ár,“ segir í Peningamálum sem komu út í dag.
Á árunum 1997-2008 var hlutfallið að meðaltali 3,9%. Í spánni er áætlað að fjárfesting hins opinbera taki að vaxa á nýjan leik á næsta ári, m.a. vegna yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um aukna fjárfestingu samkvæmt svonefndri fjárfestingaráætlun fyrir árin 2013-2015. Í henni kom fram að fjárfestingaráformin væru háð því að hægt yrði að fjármagna þau með hækkun veiðileyfagjalds, arðgreiðslum af eignarhlut ríkisins í viðskiptabönkum og hagnaði af sölu eigna.
Veiðileyfagjald nýtt í úrræði fyrir barnafólk, ekki opinberar framkvæmdir
Hækkun veiðileyfagjalds var lögfest í júní sl. en þeirri hækkun verður ekki allri ráðstafað til fjárfestingar þar sem hluta hennar á að ráðstafa til aukinna úrræða fyrir barnafólk samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs.
Því er í spánni gert ráð fyrir að sú fjárfesting sem fjármagna átti með hækkun veiðileyfagjalds gangi aðeins að hluta eftir. Þau fjárfestingarverkefni sem eru háð arðgreiðslum og sölu á hlutafé í viðskiptabönkum eru annaðhvort undanskilin í spánni eða þeim seinkað vegna óvissu um tímasetningu fjármögnunar.