Stal víni, vindlingum og veiðihníf

Héraðsdómur Norðurlands eystra.
Héraðsdómur Norðurlands eystra. mbl.is/Skapti

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt 21. árs karlmann í 45 daga skilorðsbundið fangelsi en hann braust inn á fjóra staði í Reykjadal 28. október 2010 og stal þaðan víni, vindlingum og veiðihníf.

Meðal annars braust maðurinn inn í Laugafell í Reykjadal, með því að opna laust fag og spenna upp stormjárn í eldhúsglugga á jarðhæð á norðurhlið hússins, og stal þaðan rauðvínsflösku, viskíflösku, flösku af óþekktu víni, flösku af Stroh-40, tveimur hvítvínsflöskum, veiðihnífi og kíki.

Eftir það fór hann beint í verslunina Dalakofann á Laugum í Reykjadal. Þar spennti hann upp glugga á suðurhlið hússins og braut upp stormjárn og stal þaðan einni bjórkippu, tveimur sígarettupökkum og einum vindlapakka.

Næsti viðkomustaður var sumarbústaðurinn Varmahlíð, sem er í austanverðum Reykjadal. Þar beitti maðurinn skrúfjárni á laust fag í svefnherbergisglugga á austurhlið hússins og komst þannig inn. Þar leitaði hann að verðmætum en hafði ekkert á brott með sér.

Að lokum spennti maðurinn upp og skemmdi útidyrahurð og dyrakarm á sumarbústaðnum Fjárhól, sem er í landi Narfastaða í Reykjadal. Þar virðist maðurinn ekki hafa stolið neinu heldur.

Maðurinn játaði brot sín skýlaust. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að hann játaði og að þýfinu var komið til skila að hluta fyrir tilstilli lögreglu. Þá leitaði maðurinn sátta og greiddi bætur til þeirra sem hann gerði á hlut.

Dómari leit þá bæði til ungs aldurs mannsins og til þess að nokkur dráttur hafi orðið á meðferð málsins hjá lögreglu og ákæruvaldi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert