Vantar ósk frá Íslandi um lækkun vaxta

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar.

Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, vakti máls á því vakti máls á því í þinginu í dag að hann hefði nýverið sent erindi til ríkisstjórna hinna Norðurlandanna þar sem hann hafi spurst fyrir um það hvort vilji væri fyrir því að lækka vaxtakostnað vegna þeirra lána sem ríkin lánuðu Íslandi í kjölfar bankahrunsins.

Rifjaði Helgi upp að rökin fyrir því væru meðal annars þau að hin Norðurlöndin hefðu lánað Írum á mun hagstæðari lánakjörum eftir að umrædd lán hefðu verið veitt Íslendingum. Þá væri ljóst að áhætta hinna norrænu ríkjanna vegna lánanna til Ísland væri minni í dag en skömmu eftir hrunið.

Þau viðbrögð hefðu borist frá ríkisstjórnunum að ekki hefði borist nein ósk um slíka endurskoðun vaxta frá Íslandi. Hvatti Helgi til þess að slíkri ósk yrði komið á framfæri og fagnaði frumkvæði Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í þeim efnum á fundi Norðurlandaráðs á dögunum.

Þá þakkaði Helgi einnig þingmönnunum Illuga Gunnarssyni, Álfheiði Ingadóttur og Siv Friðleifsdóttur fyrir að beita sér vegna málsins innan viðkomandi þinghópa innan Norðurlandsráðs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert