„Lífeyrissjóðirnir eiga erfitt með að veita óverðtryggð lán nema með breytilegum vöxtum. Það er bundið í lög að lífeyrissjóðir skuli greiða verðtryggðan lífeyri. Þar sem verðbólga hefur verið viðvarandi í íslensku samfélagi er óhjákvæmilegt annað en að lán með óverðtryggðum vöxtum beri breytilega vexti.“
Þetta segir Gunnar Baldvinsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða í Morgunblaðinu í dag. Tilefnið er umræða um verðtryggð lán, kosti þeirra og galla.
„Ég er ekki viss um að það breyti miklu fyrir lántakendur að velja óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum í staðinn fyrir verðtryggð lán. Sagan segir okkur að raunvextir óverðtryggðra lána hafa verið svipaðir og af verðtryggðum lánum þegar litið er yfir lengri tíma.“