Erlendir miðlar halda áfram að fjalla að einhverju marki um meintar hugmyndir á Íslandi um að skipta um nafn á landinu og finna nafn sem sé frekar til þess fallið að laða að erlenda ferðamenn í kjölfar fréttar sem birtist í bandaríska dagblaðinu USA Today nýverið þess efnis. Fréttin er merkt íslenska blaðamanninum Halldóri Bachmann en hann segir hins vegar að blaðið hafi ekki birt endanlega útgáfu hans að henni og breytt henni að eigin geðþótta.
Tilefni fréttarinnar var samkeppni sem Íslandsstofa ýtti úr vör fyrr á árinu og stendur enn yfir þar sem fólk, einkum erlendir ferðamenn, er hvatt til þess að senda inn tillögur að öðrum nöfnum fyrir Ísland sem hugsanlega lýsi betur upplifun þeirra af landinu. Var verkefnið til gamans gert og skýrt tekið fram að ekki væri um að ræða raunveruleg áform um að skipta um nafn á Íslandi.
Verði ekki kallað neitt vegna Icesave
Fréttin í USA Today olli nokkrum titringi í röðum hérlendra aðila sem hafa með höndum það verkefni að markaðssetja Ísland erlendis og þá undir nafninu Ísland. Í samtali við mbl.is í síðustu viku sagði Guðrún Birna Jörgensen, verkefnastjóri hjá Íslandsstofu, að beðið yrði átekta og kannað hversu víða fréttin færi og hvað mikið yrði úr henni. Ef á þyrfti að halda yrði brugðist við málinu. Þá mun Útflutningsráð hafa verið lítt ánægt með efni fréttarinnar.
Síðan fréttin birtist hefur hún farið eitthvað víðar. Þannig birti breska dagblaðið Guardian í gær umfjöllun um málið á vefsíðu sinni í gær þar sem lesendur vefsins eru hvattir til þess að koma með tillögur að nýjum nöfnum fyrir Ísland. Ýmislegt er nefnt í því sambandi eins og „Tesco“ (með vísan í bresku matvörukeðjuna Iceland) og „Little Britain“ eða Litla-Bretland. Þá leggur einn lesandi til að Ísland verði ekki kallað neitt af Bretum fyrr en Íslendingar hafi borgað fyrir Icesave.
Frí ferð til landsins sem áður hét Ísland
Fréttavefurinn Huffington Post fjallaði sömuleiðis um málið síðastliðinn mánudag og veltir því meðal annars fyrir sé hvort fyrri hluti nafns landsins sé talið vandamál að mati íslenskra ferðamálayfirvalda. Hins vegar er tekið fram að ríkisstjórn Íslands hafi ekki skuldbundið sig til þess að breyta nafni landsins þrátt fyrir samkeppnina um annað nafn.
Viðskiptavefurinn Investors Place er að sama skapi með umfjöllun í gær um hina meintu fyrirhuguðu nafnabreytingu og gefið í skyn að málið sé runnið undan rifjum íslenskra stjórnvalda sem telji að það gæti verið góð hugmynd að endurskíra Ísland. Þá segir að höfundur vinningstillögunnar fái verðlaun fyrir hana „og hugsanlega jafnvel fría ferð til landsins sem áður hét Ísland“.
„Ísland gott einfaldlega eins og það er“
Fréttavefurinn Inforum í Norður-Dakóta í Bandaríkjunum, þar sem búa margir Vestur-Íslendingar, vísar í frétt USA Today og heldur því meðal annars fram að aðstandendur samkeppninnar hafi lofað að senda allavega einhverjar af tillögunum til íslensku ríkisstjórnarinnar. Sömu frétt má líka finna á vefnum Wadena Pioneer Journal í dag.
Einnig er rætt í fréttinni við Vestur-Íslendinginn David Hillman sem er 72 ára og býr í borginni Walhalla í Norður-Dakóta. Hann er varaforseti Íslendingafélagsins á svæðinu og báðir afar hans og ömmur voru frá Íslandi. Hillman segist telja enga þörf á að skipta um nafn. Nafn landsins minni hann ekki á ís heldur arfleifð og hversu nútímalegt landið sé í dag. „Mér finnst eitthvað sérstakt við nafnið Ísland og ég tel að það sé gott einfaldlega eins og það er.“