Ríkisendurskoðun telur gjafabréf sem Sigurður Helgi Guðmundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjúkrunarheimilisins Eirar, lét Eir greiða vera örlætisgerning. Telur Ríkisendurskoðun að gefa eigi Sigurði Helga kost á að endurgreiða bréfið.
Framkvæmdastjóri Eirar, Sigurður Rúnar Sigurjónsson, óskaði í síðasta mánuði eftir rannsókn á reikningi upp á 200 þúsund krónur sem Sigurður Helgi lét Eir greiða. Um var að ræða gjafakort hjá Icelandair sem notað var til að kaupa á farmiðum.
Í bréfi ríkisendurskoðunar til Sigurðar Rúnars kemur fram að um örlætisgerning sé að ræða af hálfu fyrrverandi framkvæmdastjóra sem honum hafi verið óheimilt að standa fyrir án sérstaks samþykkis stjórnar Eirar auk viðeigandi skýringa í bókhaldi og skýrslu til skattyfirvalda.
Ríkisendurskoðun leggur til að fyrrverandi framkvæmdastjóra verði gefinn kostur á að ljúka málinu með því að endurgreiða andvirði gjafabréfsins innan tiltekins frests. Verði hann ekki við þeirri málaleitan sé nauðsynlegt, að mati Ríkisendurskoðunar, að huga að næsta skrefi í málinu og mun Ríkisendurskoðun reiðubúin til að láta í ljós þá möguleika sem eru í stöðinni.
Í tilkynningu til fjölmiðla í gær sagðist Sigurður Helgi Guðmundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Eirar hafna því alfarið að störf hans hafi orkað tvímælis. Hann sagðist fagna því ef gerð verður úttekt á rekstri hjúkrunarheimilisins. „Hún mun væntanlega leiða í ljós hvort eitthvað hafi verið athugavert við störf mín sem framkvæmdastjóri eða við störf stjórnar heimilisins á þessum tíma. Í því ljósi tel ég ekki rétt að tjá mig frekar um málið á þessu stigi.“
Aðspurður segir Sveinn Arason, ríkisendurskoðandi, að ekki hafi borist beiðni um að úttekt verði gerð á rekstri hjúkrunarheimilisins.