Hálka á höfuðborgarsvæðinu

Hálka er á höfuðborgarsvæðinu.
Hálka er á höfuðborgarsvæðinu. Kristinn Ingvarsson

Veðurfræðingur Vegagerðarinnar varar við éljagangi á suðvesturhorni landsins í kvöld og nótt ásamt því sem hiti fer undir frostmark. Við þær aðstæður myndast mikil hálka á vegum og þykir vert að vara ökumenn við henni, þar á meðal á höfuðborgarsvæðinu.

Víða er skafrenningur norðan- og norðaustanlands og blint, einkum á fjallvegum. Veður fer kólnandi, einkum um vestanvert landið og hálka myndast þegar frystir aftur, fyrst á Vestfjörðum.

Víða er éljagangur á Suður- og Suðvesturlandi. Hálkublettir eru á Hellisheiði og í Þrengslum og hálka eða hálkublettir austur eftir Suðurlandi. Eins eru hálkublettir á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesbraut. Á Suðurnesjum er sumstaðar töluverð hálka.

Nokkur hálka er á Vesturlandi, einkum við Faxaflóa, hálka er m.a. í Borgarfirði, á Bröttubrekku og Fróðárheiði en hálkublettir á Holtavörðuheiði og víðar.

Á Vestfjörðum er víða hálka.

Hálkublettir eða hálka er víða á Norðurlandi, einkum austan til. Á Öxnadalsheiði er snjóþekja og skafrenningur. Laxá í Aðaldal flæðir inn á veg við Garðsnúp og eru vegfarendur beðnir að sýna þar varúð.

Á Austurlandi er hált á flestum vegum norðan Reyðarfjarðar en frá Reyðarfirði er autt með ströndinni suður um.

Breiðdalsheiði og Öxi eru ófærar.  Á Suðausturlandi eru hálkublettir eða jafnvel hálka frá Skeiðarársandi og vestur í Vík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert