„Ég er við íbúð við ströndina og var nýkomin inn þegar sírenurnar fóru í gang. Ég pældi ekkert í því og hélt þetta væri bara eðlilegt í Tel Aviv, en svo var bankað á hurðina og ég heyrði mikil læti og öskur frammi, allir þutu niður og ég skildi ekki orð,“ segir Agnes Valdimarsdóttir sem kom til Tel Aviv í Ísrael sama dag og sprengjum var varpað þangað í fyrsta sinn í 20 ár.
Palestínumenn skutu í dag tveimur eldflaugum frá Gasa-ströndinni inn í Tel Aviv, þar sem mikill ótti braust út meðal borgarbúa. Önnur sprengjan lenti í sjónum en hin á auðu svæði sunnan við borgina. Ekkert manntjón virðist hafa orðið. AFP hefur eftir ísraelskum fjölmiðlum að þetta sé í fyrsta sinn sem eldflaugum sé varpað á Tel Aviv síðan í Persaflóastríðinu 1991 og jafnframt hafi eldflaug aldrei áður náð jafnlangt inn í Ísrael.
Sprengjum rignt á báða bóga
Aukin harka færðist í leikinn milli Ísraels og Palestínu á miðvikudag eftir að Ahmed Jaabari, yfirmaður hersveita Hamas samtakanna, var drepinn í loftárás Ísraelshers á Gasaborg. Sprengjum hefur rignt milli landanna síðustu tvo daga og hafa a.m.k. 15 Palestínumenn látið lífið, þar af fjögur börn, og 150 særst. Þá hafa þrír Ísraelsmenn látið lífið.
Ísraelsher segist hafa gert um 150 loftárásir á Gasa og á móti hafi um 250 sprengjum verið varpað frá Gasa yfir Ísrael. Að sögn BBC má búast við því að átökin harðni verulega ef sprengja fellur inni í Tel Aviv, sem er verslunarhöfuðborg Ísraels og fjölmennasta borgin. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hélt sérstakan neyðarfund í New York í gær að beiðni Egyptalands og annarra arabaríkja um ástandið.
Þrúgandi andrúmsloft í Palestínu
Agnes Valdimarsdóttir var í Ramallah á Vesturbakkanum í Palestínu ásamt hópi blaðamanna undanfarna daga en er nú komin yfir til Ísraels. „Það er mjög skrýtið að koma til Tel Aviv eftir að hafa verið í Palestínu, því hér hefur fólk ekki þær áhyggjur sem Palestínumenn hafa. Þar voru allir mjög vinsamlegir, en einhvern veginn er andrúmsloftið mun þyngra og meiri spenna í loftinu.“
Um mínúta leið frá því loftvarnarflauturnar fóru af stað í kvöld og þar til eldflaugarnar lentu. Agnes vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið, en íbúar í fjölbýlishúsinu þar sem hún gistir létu hana vita af því að verið væri að vara við árás. „Ég fór í skó og hljóp niður með þeim og það settust allir í miðjan stigaganginn því það var búið að segja fólki að efstu og neðstu hæðirnar í húsum væru ekki öruggar þegar von er á loftárás.“
Agnes gistir við ströndina þar sem einnig eru fjöldi hótela og segir hún mikinn ótta hafa brotist út meðal ferðamanna þar sem vissu ekki hvernig ætti að bregðast við. Íbúar Tel Aviv taki þessu hins vegar flestir nokkuð rólega. „Konan sem ég er hjá er mjög róleg, en konan í íbúðinni við hliðina er alveg að tapa sér. Ég ætlaði að fara út í kvöld að hitta ísraelska vini mína en fékk skilaboð frá þeim um að Ísraelsmenn væru beðnir um að halda sig innandyra í kvöld.“
Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, segir að Ísraelsmenn muni „grípa til allra nauðsynlegra aðgerða“ til að verja borgara sína fyrir palestínskum sprengjuárásum. Talsmenn Hamas samtakanna segja vopnahlé við Ísrael ekki koma til greina núna.