Líður ekki eins og glæpamanni

Jón Ásgeir Jóhannesson, Svavar Halldórsson og Pálmi Haraldsson.
Jón Ásgeir Jóhannesson, Svavar Halldórsson og Pálmi Haraldsson. mbl.is

„Ég veit ekki hvað það er með mig, en mér líður ekki eins og glæpamanni. Ég veit að fréttin er sönn, ég hafði afskaplega öruggar heimildir og fékk að sjá pappíra sem staðfesta allt saman,“ segir Svavar Halldórsson fréttamaður sem í dag var dæmdur til að greiða Jóni Ásgeiri Jóhannessyni miskabætur.

Eins og greint var frá á mbl.is fyrr í dag sneri Hæstiréttur við sýknudómi Héraðsdóms Reykjaness í máli Jóns Ásgeirs gegn Svavari vegna fréttar sem birt var í aðalfréttatíma Ríkisútvarpsins 6. desember 2010. Hæstiréttur dæmdi ummæli sem fram komu í fréttinni dauð og ómerk og gerði Svavari að greiða Jóni Ásgeiri 300 þúsund krónur í miskabætur og eina milljón króna í málskostnað.

Þetta er í annað skipti á tæpu ári sem Hæstiréttur snýr við sýknudómi í máli á hendur Svavari en hann var í nóvember 2011 dæmdur til að greiða Pálma Haraldssyni 200 þúsund krónur auk þess sem ummæli í frétt Svavars voru dæmd dauð og ómerk.

Teygir sig ótrúlega langt

„Þetta er furðulegur dómur,“ segir Svavar. „Jón Ásgeir sýndi ekki fram á að þessi tilteknu ummæli væru ósönn og mér var stillt upp við vegg þannig að ég átti óhægt um vik að sanna þau. Nema þá að upplýsa um heimildamenn mína. En öll efnisatriði fréttarinnar sem hægt var að staðfesta með skjölum og pappírum voru staðfest. Þannig að mér finnst dómurinn vera teygja sig ótrúlega langt.“

Í dómi Hæstaréttar segir að Svavar hafi ekki sýnt fram á að hann hafi við vinnslu fréttarinnar leitað eftir upplýsingum frá Jóni Ásgeiri um efni hennar. „Gætti hann því ekki þeirrar skyldu sem fram kemur í 2. gr. reglna um fréttir og dagskrárefni tengt þeim í Ríkisútvarpinu frá 1. maí 2008 að leita „ ... upplýsinga frá báðum eða öllum aðilum og leitast við að kynna sjónarmið þeirra sem jafnast.“ Getur [Svavar] því ekki talist hafa verið í góðri trú um sannleiksgildi þeirra ummæla um [Jón Ásgeir] sem í fréttinni fólust.“

Spurður út í þetta atriði segir Svavar það merkilegt að innanhúsreglur Ríkisútvarpsins skuli vera orðnar forsendur í Hæstaréttardómum. „Og allir blaðamenn á Íslandi vita, að maður tekur ekki upp símann og hringir í Jón Ásgeir. Hann hefur bæði forðast að láta ná í sig en einnig lofað því að koma í viðtöl, t.d. hjá okkur, og svikið það ítrekað,“ segir Svavar en áréttar að hann hafi reynt að ná í Jón Ásgeir en það ekki gengið eftir. „Og það er stórmerkilegt að fréttamaður má ekki segja frétt sem hann er með ef eitthvað af viðfangsefnum í henni svarar ekki í síma.“

Stillt upp við vegg

Forsendur Hæstaréttar í báðum málum gegn Svavari eru í grunninn þær sömu, nema fyrir það að Pálmi Haraldsson lagði fram gögn sem Hæstiréttur tók góð og gild. „Hann lagði fram kvittanir sem hann sagði sýna fram á að peningarnir væru ekki týndir. Það væri spennandi að vita hvort Hæstiréttur hafi látið þrotabú Fons og þrotabú Glitnis vita hvar peningarnir eru, fyrst að þeir fundust.

En Jón Ásgeir lagði ekki fram nein gögn til að sýna fram á að efnisatriði fréttarinnar væru röng. Og honum hefði verið í lófa lagið að leita sér upplýsinga og fá staðfest að hann væri ekki til skoðunar í þessu máli. En hann sleppti því og það virðist ekki hafa skipt Hæstarétt nokkru máli,“ segir Svavar.

Í dómnum segir raunar að Svavar hafi engin gögn lagt fram um að tilgreind ummæli um Jón Ásgeir eigi við rök að styðjast og að hann þurfi að bera hallann af því. Þá segir að það hafi staðið Svavari nær en Jóni Ásgeiri að tryggja sér slíka sönnun.

Svavar segist hafa skrifað fjöldann allan af fréttum um Jón Ásgeir en lögmenn hans hafi greinilega sérvalið umrædda frétt. „Þetta atriði er ekki einu sinni aðalatriði fréttarinnar og hann hefur valið að fara í mál þar sem lögmenn hans hafa væntanlega metið það sem svo að þarna sé hægt að berja á mér. Þarna er hægt að stilla mér upp við vegg og ég get ekki varið mig nema upplýsa um heimildarmenn. Og þeir vita auðvitað að heiðvirður blaðamaður gerir það ekki.“

Reynt að segja satt og rétt frá

Eins og áður segir þarf Svavar að greiða Jóni Ásgeiri 1,3 milljónir króna. Spurður hvort hann þurfi sjálfur að bera þann kostnað segir Svavar að ekki sé komin mikil reynsla á mál sem þessi hjá RÚV. „En RÚV hefur greitt allan lögfræðikostnaðinn og ég reikna með að RÚV muni standa á bak við mig í þessum málum hér eftir sem hingað til.“

Hvað varðar áhrif dómsins á fréttaflutning Svavars segist hann ekki breyta sínum vinnubrögðum. „Ég hef hingað til reynt að segja satt og rétt frá og ætla að halda því áfram. Þetta er rétt og þessi ómerktu ummæli, sama hvað Hæstarétti finnst, eru staðreyndir, fréttin er rétt. Og ef ég á að breyta mínum vinnubrögðum þá þyrfti ég að hætta að segja satt, ég ætla ekki að gera það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert