„Þetta er fullkomlega eðlilegt. Við förum í einu og öllu eftir lögum, reglugerðum og lyfjaskrám. Þránunargildið, sem mælist í Omega-3 hefur engin neikvæð áhrif á gæði vörunnar,“ segir Katrín Pétursdóttir forstjóri Lýsis.
Hún segir að þær fullyrðingar sem komu fram í frétt RÚV í gær um að Omega-3 lýsisperlur hefðu fengið „falleinkunn“ í danska sjónvarpsþættinum Kontant vera rangar. Þar sagði að gildi þránunar í lýsisperlunum hefði mælst 3-22 á totox-gildi.
„Samkvæmt lyfjaskrám er miðað við að totox-gildi fari ekki upp yfir 50. Þannig að þetta er fullkomlega eðlilegt, þetta er vara sem er í fullkomnu lagi og mér finnst það ábyrgðarhluti af fréttamiðli að fara fram með þessum hætti og setja þetta fram eins og þetta sé óeðlilegt innihald,“ segir Katrín.
„Þessi fréttaflutningur er óábyrgur gagnvart þeim mörgu neytendum sem taka lýsi daglega og njóta þess ávinnings sem lýsi hefur á mannslíkamann. RÚV reyndi að tortryggja okkar framleiðslu,“ segir Katrín.
Hún segist hafa séð danska þáttinn áður en RÚV tók málið upp. „Ég gat ekki séð að þetta væri mjög vísindalega unnið hjá þeim. Til dæmis var þar fullyrt að fitusýrur væru ekki ferskar nema þær mældust undir 1 á totox-gildi.“
Katrín segist ekki búast við því að neinir eftirmálar verði af málinu. „En við vildum koma því á framfæri að þarna væri farið með rangt mál og getum bent á lyfjaskrá í þessu sambandi. Við stöndum mjög framarlega og ætlum að halda því áfram.“