Svavar tvívegis dæmdur á einu ári

Svavar Halldórsson fréttamaður.
Svavar Halldórsson fréttamaður. Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Hæstiréttur hefur á einu ári dæmt Svavar Halldórsson, fréttamann Ríkisútvarpsins, til að greiða tveimur svonefndum „útrásarvíkingum“ skaðabætur vegna umfjöllunar sinnar í fréttatíma RÚV. Alls hefur hann verið dæmdur til greiðslu 1,5 milljóna króna í bætur og málskostnað.

Eins og greint var frá á mbl.is fyrr í dag féllst Hæstiréttur á kröfu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, fyrrverandi forstjóra Baugs, um að tiltekin ummæli yrðu dæmd dauð og ómerk. Rétturinn dæmdi Svavar Halldórsson sem viðhafði ummælin í aðalfréttatíma ríkisútvarpsins 6. desember 2010 einnig til að greiða Jóni Ásgeiri þrjú hundruð þúsund krónur í skaðabætur og eina milljón í málskostnað.

Svavar var einnig dæmdur í Hæstarétti 24. nóvember 2011. Þá voru tiltekin ummæli um Pálma Haraldsson, oftast kenndan við Fons, dæmd dauð og ómerk og Svavari gert að greiða Pálma tvö hundruð þúsund krónur í skaðabætur.

Í báðum tilvikum sneri Hæstiréttur við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness sem sýknaði Svavar af kröfum þeirra Pálma og Jóns Ásgeirs.

Í máli Jóns Ásgeirs sagði héraðsdómur að Svavar hefði lýst því yfir að fréttin byggðist á heimildum, munnlegum og skriflegum, sem hann meti trúverðugar. „Verður ekki lagt á stefnda að færa fram sönnun fyrir þessum ummælum en réttur fréttamanna til að standa vörð um og halda leynd yfir heimildum og heimildarmönnum hefur verið staðfestur í dómsúrlausnum.“

Og í máli Pálma sagði að þó Svavari kunni við samningu fréttarinnar að hafa skjátlast að einhverju leyti í mati sínu á heimildum hafi ekki verið sýnt fram á að þær fullyrðingar, sem birtust í fréttinni, hafi verið settar fram í vondri trú.

Gat ekki verið í góðri trú

Hæstiréttur gefur hins vegar lítið fyrir slíkar röksemdir og segir í báðum málum að efni fréttanna verði ekki skilið á annan veg en að með þeim sé verið að bera Pálma og Jóni Ásgeiri á brýn háttsemi sem er refsiverð.

Þá segir að Svavar hafi ekki lagt fram gögn eða sýnt fram á að fréttaflutningur sinn eigi við rök að styðjast. Ennfremur hafi hann ekki gætt að reglum Ríkisútvarpsins um að leita upplýsinga frá báðum eða öllum aðilum og leitast við að kynna sjónarmið þeirra sem jafnast.

Að endingu segir svo gott sem orðrétt í báðum dómum: „Getur [Svavar] því ekki talist hafa verið í góðri trú um sannleiksgildi þeirra ummæla sem í fréttinni fólust.“ Sökum þessa var fallist á kröfur þeirra Pálma og Jóns Ásgeirs.

Pálmi Haraldsson
Pálmi Haraldsson mbl.is/Þorkell
Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert