Fráfarandi bæjarstjóri á launum til 31. maí

Frá Akranesi.
Frá Akranesi. mbl.is/ÞÖK

Bæjarstjórn Akraneskaupstaðar samþykkti starfslokasamning við Árna Múla Jónsson, fráfarandi bæjarstjóra, á fundi sínum sl. þriðjudag. Fram kemur á vef Skessuhorns, að hann muni ljúka verkefnum sem hann var byrjaður á fyrir bæjarfélagið um næstu áramót. Frá áramótum og til 31. maí fái Árni greidd full laun án þess að vinnuskylda komi á móti.

Í frétt Skessuhorns segir, að í samningum sé m.a. kveðið á um að starfslok Árna Múla við daglegar skyldur bæjarstjóra hafi verið við undirritun samningsins 7. nóvember sl. Hann muni þó ljúka til næstu áramóta ýmsum verkefnum sem hann var byrjaður á fyrir bæjarfélagið.

„Starfslokagreiðsla hans eftir það felst í að hann fær greidd full laun til 31. maí 2013 án þess að vinnuskylda komi á móti eftir áramót. Á undanförnum árum hefur, í þeim tilfellum sem sveitarstjórar hér á landi hafa ekki gegnt störfum út kjörtímabil, verið algengt að þeir hafi fengið laun út yfirstandandi kjörtímabil. Þannig eru jafnvel dæmi um að 2-3 sveitarstjórar hafi verið á launum samtímis,“ segir í frétt Skessuhorns.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert