Tollurinn segir að það margborgi sig að velja rauða hliðið í Leifsstöð, ef fólk hefur keypt varning erlendis sem því ber að greiða toll af.
Hver og einn velur hvort hann fer í gegnum rautt hlið eða grænt við komuna til landsins. Hafi grænt hlið verið ranglega valið, og í ljós kemur við tollskoðun að varningur er umfram heimildir, telst slíkt smygl og varðar viðurlögum skv. tollalögum,segir í tilkynningu frá Tollstjóraembættinu.
Nemi sekt fyrir tollalagabrot, ein og sér, 50.000 krónum eða meiru færist tollalagabrotið á sakaskrá viðkomandi.
Á heimasíðu Tollstjóra eru gagnlegar upplýsingar sem nauðsynlegt er að kynna sér áður en komið er til landsins með varning sem keyptur hefur verið erlendis. Jafnframt má finna á heimasíðunni reiknivél, sem auðveldar fólki að átta sig á hvað tiltekinn hlutur kostar, kominn til landsins.