Landspítalinn hefur verið undir miklu álagi að undanförnu en ástandið var sérstaklega slæmt í október. „Þann mánuð fór rúmanýting á spítalanum upp í 93% sem er of mikið þar sem við þurfum að geta tekist á við sveiflur í veikindum og slysum,“ segir Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans.
Björn fjallar um stöðu sjúkrahússins í vikulegum pistli sem er að finna á vef LSH.
Fram kemur að komum á bráðamóttöku kvennadeilda Landspítala hafi fjölgað um 6,9% fyrstu tíu mánuði ársins 2012, komum á bráðamóttöku geðdeilda um 6,6%, komum á Hjartagátt um 8% og komum á bráðadeildina í Fossvogi um 1,9%. Legudögum á spítalanum hafi fjölgað og meðallegutími lengst.
„Helstu tölur fyrir Landspítala fyrstu tíu mánuði ársins liggja nú fyrir. Það kemur í ljós, eins og ég hef áður sagt, að mjög mikið hefur verið að gera á spítalanum allt árið þó að það hafi verið sérlega slæmt síðastliðinn mánuð. Þann mánuð fór rúmanýting á spítalanum upp í 93% sem er of mikið þar sem við þurfum að geta tekist á við sveiflur í veikindum og slysum. Það hefur verið töluvert um gangainnlagnir, eins og minnst var á síðastliðinn föstudag, og þó að við höfum fundið fyrir þeim allt árið þá hefur keyrt um þverbak síðustu tvo mánuði. Við höfum engar snöggar lausnir á því máli en verið er að vinna að mörgum atriðum til þess að leysa þann vanda,“ skrifar Björn.
„Það kemur í ljós að fyrstu tíu mánuði ársins hefur komum á bráðamóttökur okkar fjölgað um meira en 2%. Til dæmis hefur komum á bráðamóttöku kvennadeilda fjölgað um 6,9%, komum á bráðamóttöku geðdeilda um 6,6%, komum á Hjartagátt um 8% og komum á bráðadeildina í Fossvogi um 1,9%. Það sem einnig kemur í ljós í helstu tölum um starfsemi spítalans er að legudögum hefur fjölgað (+1,8%) og meðallegutími hefur lengst um 2,7%. Hann er nú 7,1 dagur,“ skrifar Björn ennfremur.
Þá segir hann, að samkvæmt bráðabirgðauppgjöri spítalans fyrir fyrstu tíu mánuði ársins „þá erum við nú 165 milljónir í mínus fyrir árið. Er það mest vegna viðhalds og bráðakaupa á tækjum en einnig vegna mikils álags á legudeildir og þar af leiðandi aukins launakostnaðar. Í tillögum ríkisstjórnarinnar og meirihluta fjárlaganefndar til breytinga á fjáraukalögum fyrir árið 2012 er framlag til tækjakaupa spítalans aukið um 150 milljónir, eins og ég hefur áður nefnt. Það mun aðstoða okkur við að ná spítalanum á rétt ról aftur auk þess sem við getum styrkt tækjakost spítalans að einhverju leyti síðustu vikur ársins.
Útkomuspár okkar fyrir árið 2012 benda til þess að við munum verða réttu megin við strikið í lok árs en það verður auðvitað hörð barátta að ná því markmiði, þriðja árið í röð.“