Frystiskipið Pólfoss, skip Eimskipafélagsins, strandaði við eyjuna Altra í Norður-Noregi um sexleytið í morgun. Ekki urðu slys á áhöfn og ekki vitað um skemmdir á skipi og farmur er óskemmdur.
Pólfoss strandaði á sandgrynningum og ekki hefur verið vart við neinn olíuleka úr skipinu, samkvæmt upplýsingum frá Eimskip.
Skipið var að á leið frá Melbu til Álasunds þegar óhappið varð. Veður á strandstað er gott. Áhöfnin er að meta aðstæður og næsta flóð er um klukkan 13:45 á staðartíma, 12:45 að íslenskum tíma.
Ekkert er vitað um tildrög strandsins að svo stöddu en félagið er vátryggt fyrir tjónum sem þessum.