Hjólreiðaslys fleiri en talið var

Hjólreiðakappar njóta fallegra haustlita.
Hjólreiðakappar njóta fallegra haustlita. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þeim fjölgar sem nota reiðhjól sem fararskjóta og að sama skapi hefur þeim líka fjölgað sem verða fyrir slysi á reiðhjóli. Að jafnaði leita um 100 slasaðir hjólreiðamenn á slysadeild Landspítalans á ári. Meiðsli á höfði og höndum eru algengust, en sem betur fer slasast flestir ekki alvarlega.

Til marks um auknar vinsældir hjólreiða er skemmst að líta til hins árlega átaks Hjólað í vinnuna. Þátttakendum í átakinu hefur fjölgað verulega, því árið 2004 voru 2.500 skráðir til leiks en árið 2011 voru þátttakendur rúm 11 þúsund. Það kemur því kannski ekki á óvart að fleiri óhöpp verði tengd hjólreiðum.

2-3 sinnum fleiri en talið var

Samkvæmt slysaskrá Umferðarstofu hefur hjólreiðaslysum fjölgað á undanförnum árum. Árið 2000 eru 55 hjólreiðaslys skráð, 63 árið 2007 en 84 árið 2011. Slysaskráin er byggð á gögnum frá lögreglu, en erlendar rannsóknir sýna að stór hluti slasaðra hjólreiðamanna sem leita á slysadeild gera það án þess að lögregla komið að málum. Því lék grunur á því að slasaðir hjólreiðamenn á Íslandi væru fleiri en tölur Umferðarstofu gefa til kynna. 

Við nánari skoðun reyndist það vera rétt. Á rúmum áratug frá 2000-2011 leituðu a.m.k. 1.193 slasaðir hjólreiðamenn til slysadeildar Landspítalans, eða að jafnaði um 100 á ári. Fjöldi slasaðra hjólreiðamana er því a.m.k. 2-3 sinnum fleiri en tölur Umferðarstofu gefa til kynna.

Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem var samvinnuverkefni Rannsóknarnefndar umferðarslysa og Landspítalans. Farið var yfir slys hjólreiðamanna sem skráðir eru í grunn Landspítalans, gerð ítarleg áverkagreining og gögnin borin saman við gögn Umferðarstofu. Sævar Helgi Lárusson, verkfræðingur hjá Rannsóknarnefnd umferðarslysa, kynnti niðurstöðurnar á Rannsóknarráðstefnu Vegagerðarinnar um liðna helgi.

Fáir slasast alvarlega

Af þeim tæplega 1.200 hjólreiðamönnum sem leituðu á slysadeild reyndust um 69% aðeins hafa slasast lítillega. Um 100 manns, eða 8% hópsins, þörfnuðust innlagnar. Bráðabirgðaniðurstöður gefa því til kynna að aðeins lítið hlutfall hjólreiðamanna slasist alvarlega. Síðast varð banaslys á reiðhjóli árið 1997. 

Samkvæmt gögnum Landspítalans urðu flest slysin á virkum dögum á tímabilinu frá maí fram í september. Algengast var að slysin yrðu síðdegis, milli klukkan 16 og 19.

Langalgengast er að hjólreiðamenn slasist á höndum. Slíkir áverkar greindust í tæpum helmingi tilfella. Höfuðáverkar voru skráðir í 20% tilfella og áverkar í andliti í 10% tilfella. Áverkar á mjaðmagrind og fótum voru skráðir í tæplega 40% tilfella. Karlar eru í meirihluta slasaðra, eða um 70%, og um fjórðungur þeirra sem leituðu á slysadeild vegna hjólreiðaslysa voru drengir á aldrinum 5-14 ára.

Við nánari greiningu á gögnum Landspítalans kom í ljós að nokkuð er um að slasaðir hjólreiðamenn séu ekki skráðir sem slíkir. Ítarlegri leit hefur því verið gerð í skrám spítalans og er ráðgert að úrvinnslu þeirra ljúki á næsta ári. 

Hjólreiðaslysum hefur fjölgað undanfarin ár samkvæmt slysaskrá Umferðarstofu.
Hjólreiðaslysum hefur fjölgað undanfarin ár samkvæmt slysaskrá Umferðarstofu. mbl.is/Elín Esther
Út um allan bæ er hjólandi fólk á öllum aldri …
Út um allan bæ er hjólandi fólk á öllum aldri og reiðhjólin verða sífellt vinsælli farartæki. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert