Sigríður opin fyrir formennsku

Sigríður Ingibjörg sést hér vefja Árna Pál Árnason örmum á …
Sigríður Ingibjörg sést hér vefja Árna Pál Árnason örmum á flokksvalsvöku Samfylkingarinnar í Reykjavík. Sigríður var í 2. sæti á eftir Össuri Skarphéðinssyni. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er mjög ánægð og þakklát fyrir þennan afgerandi stuðning. Ég stefndi á 1.-2. sætið og hef fundið fyrir miklum meðbyr í baráttunni. Ég vil nota tækifærið og þakka kærlega fyrir þann stuðning,“ segir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, sem varð í 2. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík. Hún hlaut alls 904 atkvæði í 1. sætið en 2.082 í heild, en Össur alls 1.800. Þannig var hún með 282 atkvæðum fleiri en Össur í heild.

Hún segir baráttuna hafa verið góða. „Baráttan var málefnaleg og góð og hægt er að horfa til hennar með stolti,“ segir Sigríður Ingibjörg.

Hún segir baráttu Samfylkingarinnar rétt að byrja. „Við erum að hefja sókn fyrir kosningabaráttuna næsta vor og Samfylkingin mun ekkert gefa eftir í því. Núna erum við einnig að leggja lokahönd á fjárlagafrumvarp og erum í næstu viku að fara í umræður um nýja stjórnarskrá. Þannig eru næg verkefni framundan,“ segir Sigríður Ingibjörg.

Hún segir aðrar niðurstöður flokksvalsins ekki koma á óvart. „Ég held að margir hafi búist við þessari eða svipaðri niðurstöðu. Ég sakna þess þó að sjá yngri konurnar tvær í átta efstu sætunum en mér finnst þetta engu að síður glæsilegur og breiður listi sem samfylkingarfólk í Reykjavík getur unað vel við,“ segir Sigríður Ingibjörg.

Aðspurð segir hún óljóst hverjir muni sækjast eftir formennsku í flokknum. „Ég hef haldið því opnu, við verðum bara að sjá hvernig þetta spilast á næstu vikum. Í augnablikinu gleðst ég bara yfir góðum árangri í Reykjavík og á næstu vikum gefst tækifæri til að hugsa það vel hver tekur við formennsku í flokknum,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka