„Ég sóttist eftir því að halda 1. sæti og ég vissi að það yrði á brattann að sækja. Ég náði ekki settu marki og er auðvitað ekki ánægður með það. En ég tek niðurstöðunni af yfirvegun,“ segir Björgvin G. Sigurðsson, sem hafnaði í öðru sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.
„Ég var fyrir löngu búinn að búa mig undir að það gæti brugðið til beggja vona.“
Björgvin, sem var í efsta sæti listans í síðustu þingkosningum, fékk 669 atkvæði í 1.-2. sætið og laut í lægra haldi fyrir Oddnýju G. Harðardóttur, sem mun leiða listann í komandi þingkosningum.
Hver heldurðu að sé skýringin á því að þér tókst ekki að halda efsta sætinu? „Það blasir við að undanfarið hafa verið umbrotaár. Ég hef verið þátttakandi í stjórnmálum á erfiðum tímum og það hefur tekið á. Það hriktir í og þetta var varnarbarátta út af þeim atburðum öllum. Ég vissi það alltaf.
Ég óska Oddnýju innilega til hamingju með verðskuldaðan sigur, ég er ánægður með listann sem kemur út úr þessu. Þetta er hörkulisti með nýju og öflugu fólki í 3., 4. og 5. sæti,“ segir Björgvin.
Hann segir að brotthvarf Róberts Marshalls, sem hefur gengið til liðs við Bjarta framtíð, hafi opnað fyrir möguleika á endurnýjun. „Þetta eru bæjarfulltrúar frá Árborg og Hornafirði, ungt og öflugt sveitarstjórnarfólk og þetta er merkilega vel samsettur listi.“
Hvernig var kosningabaráttan að þínu mati? „Hún var málefnaleg og hófstillt og ég varð aldrei var við nein sérstök leiðindi í henni. Hún fór vel fram, að því er ég fann. Það var greinilegur þungi í því að kona leiddi listann og það var eins og það var. Baráttan mun ekki hafa nein áhrif á samstarf fólksins á listanum.“