Traustsyfirlýsing á þingflokkinn

F.v. Björk Vilhelmsdóttir, Anna Margrét Guðjónsdóttir, Skúli Helgason og Sigríður …
F.v. Björk Vilhelmsdóttir, Anna Margrét Guðjónsdóttir, Skúli Helgason og Sigríður Ingibjörg ingadóttir. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er mjög sáttur við baráttuna, þetta gekk vel enda lagði ég áherslu á að vera málefnalegur eins og ég hef reynt að gera á þinginu. Fyrst og fremst er ég mjög þakklátur öllu því fólki sem lagði mér lið í baráttunni og þeim góðu straumum sem ég fékk allan tímann,“ segir Skúli Helgason sem varð í 5. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík.

Hann segir niðurstöðuna í samræmi við væntingar. „Þetta er svipað því sem ég reiknaði með fyrirfram. Að mínu mati er um að ræða mjög sterkan lista. Við fáum þarna inn tvo mjög sterka kandídata, Björk Vilhelmsdóttur og Önnu Margréti Guðjónsdóttur, sem styrkja hópinn,“ segir Skúli.

Hann segir að úrslitin séu traustsyfirlýsing á störfum þingmanna Samfylkingarinnar. „Þetta er mjög góð niðurstaða fyrir okkur sem höfum verið á þinginu, þetta er ákveðin traustsyfirlýsing á okkar stjórn, sem er mjög jákvætt fyrir þingflokkinn,“ segir Skúli.

„Þingmennirnir í Reykjavík hafa verið farsælir í sínum störfum, þeir hafa unnið vel saman og ég trúi því og treysti að sú samvinna haldi áfram eftir þessa niðurstöðu,“ bætir hann við.

Vilja velferðarkonu á þing

Kjörsóknin var viss vonbrigði að mati Skúla. „Hún er í takt við það sem maður bjóst við eftir prófkjörið síðustu helgi, það gaf svolítið tóninn og það er ljóst að erfiðara er að ná upp mikilli kjörsókn, sem endurspeglar auðvitað ástandið, nú eru skrýtnir tímar í stjórnmálum út um allan heim og mikil vantrú á fyrirbærinu sem er auðvitað áskorun fyrir okkur og fólk úr öllum flokkum að gera sífellt betur,“ segir Skúli.

Áhugavert er að líta til þess að Skúli, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Helgi Hjörvar og Valgerður Bjarnadóttir voru öll með fleiri atkvæði en Össur Skarphéðinsson í heild.

Björk Vilhelmsdóttir varð í 6. sæti og sagðist aðspurð vera mjög sátt við niðurstöðuna. „Ég er heldur betur sátt, þetta eru frábær úrslit og afbragðsgóður listi sem kemur út úr þessu flokksvali,“ segir Björk.

Hún segir niðurstöðuna til marks um aukinn áhuga á velferðarmálum. „Samfylkingin sýnir það með þessum hætti að hún er velferðarflokkur, það túlka ég út úr þessum niðurstöðum - fólk vill fá velferðarkonu á þing,“ segir Björk.

„Ég er mjög glöð að konur leiði lista hér í Reykjavík og líka á Suðurlandi, mér finnst það skipta miklu máli fyrir okkar feminíska flokk,“ segir Björk.

Björk er ósátt við kjörsókn. „Ég hefði að sjálfsögðu viljað hafa hana meiri því eins og þjóðaratkvæðagreiðslan sýndi þá vill fólk persónukjör í auknum mæli og prófkjörin í dag eru leið fólksins til að hafa áhrif í núverandi kosningakerfi. Þess vegna hefði maður haldið að fólk hefði meiri áhuga á þátttöku í prófkjöri en þetta,“ segir Björk.

Úrslitin tilkynnt
Úrslitin tilkynnt mbl.is/Árni Sæberg
„Samfylkingin sýnir það með þessum hætti að hún er velferðarflokkur, …
„Samfylkingin sýnir það með þessum hætti að hún er velferðarflokkur, það túlka ég út úr þessum niðurstöðum - fólk vill fá velferðarkonu á þing,“ segir Björk Vilhelmsdóttir. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert