Dauðinn flókið hugtak fyrir börn

Áslaug Melax flytur hugvekju sína við minningarathöfnina í Fossvogi í …
Áslaug Melax flytur hugvekju sína við minningarathöfnina í Fossvogi í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Efst í huga eru þeir sem hafa látist í umferðarslysum, það eru allt of margir og þetta gerist allt of oft finnst manni. Mér fannst Norðurlandið lenda illa út úr því í fyrra og fyrir austan, ung stúlka. Þetta var ungt fólk - dálítið margir á síðasta ári. Maður veit að það eru fjölskyldur á bak við þessa einstaklinga og þetta er flókið og erfitt. Það er kannski það sem maður hugsar mest um sem manneskja,“ sagði Áslaug Melax spurð að því hvað væri henni efst í huga í dag á minningardegi fórnarlamba umferðarslysa.

Áslaug flutti hugvekju á minningarathöfn um fórnarlömb umferðarslysa sem haldin var í tilefni dagsins við bráðamóttökuna í Fossvogi kl. 11 í dag.

Missti móður sína 6 ára gömul og 13 ára stjúpdóttur fyrir ári

-Nú misstir þú móður þína fyrir 40 árum og stjúpdóttur fyrir ári. Þú talaðir um sorg barna, þína upplifun og hvernig samfélagið brást við þá í hugvekju þinni. Telur þú að samfélagið sé farið að bregðast betur við sorg barna í dag en fyrir 40 árum?

„Ekki spurning og þó að maður muni ekki svo mikið þá man maður samt þetta mjög vel. Hvernig það var sterkt að maður átti ekki að vera að tala um þetta og í dag erum við stöðugt að reyna að minnast þess látna með myndum, kveikja á kertum og tala um. En í rauninni eins og í mínu tilfelli þá held ég að fólk hafi bara horfið úr lífi manns og svo var í rauninni ósköp lítið um það rætt. Pabbi fór bara áfram að vinna og fólk átti að taka þetta bara á hörkunni.

Það var talið bjarga öllu að snúa öllu bara í rétt horf, fara að vinna og sem minnst að tjá sig. Þannig að þetta hefur svo sannarlega breyst og ég vona að prestar almennt séu meðvitaðir um það. Auðvitað er það fyrir hvern og einn að meta hvort hann treysti sínu barni varðandi kistulagningu og annað, en það er mín skoðun að það er mikilvægt fyrir börnin að fá að sjá hinn látna, ef hann lítur ekki illa út.“

„Fólk er ennþá að setjast upp í bíla og ekki spenna sig.“

-Þér var þakklæti í huga til Umferðarstofu og þeirra sem koma fyrstir á slysstað. Eru stjórnvöld að gera nóg í dag til þess að fræða almenning og í forvörnum gegn slysum, eins langt og hægt er að ganga í því?

„Alveg klárlega ekki nóg og örugglega ekki nóg. Það er voða erfitt að meta hvenær er nóg. Er það þegar slysin hætta? Forvarnir þurfa stöðugt að vera í gangi og ég veit að á Siglufirði hefur móðirin þurft að vera að berjast fyrir því að ná fram hraðahindrunum og það á ekki að þurfa að vera þannig. Foreldrar syrgjandi barna eiga ekki að þurfa að standa í þessu. Það þarf alltaf einhverja til að vera vakandi.

Ég veit og sé gegnum Umferðarstofu að það er verið að reyna að útbúa kennsluefni og ná til barna og unglinganna okkar, sem eru að fara út á göturnar. Það er eins og þegar mamma deyr, þá er ekki einu sinni búið að lögleiða öryggisbelti, sem er ástæðan fyrir því að hún situr beltislaus aftur í og kastast út úr bílnum. En það er ennþá fólk að setjast upp í bíla og ekki spenna sig. Það þarf stöðugar forvarnir og örugglega meiri pening.“

Telur að betur megi merkja hámarkshraða í þéttbýli

Áslaug segir hraðatakmarkanir vera þarfar en segir að sér finnist oft mega merkja hámarkshraðann betur.

„Er ég á 30 km götu hér? Mér finnst oft vanta [merkingar - innsk. blaðamanns] með styttra millibili, eins og hérna í Reykjavík. Það er ósköp auðvelt að vera allt í einu kominn upp í 50 km hraða þar sem er 30 km hámarkshraði,“ segir Áslaug.

Hún segir að slysið sjálft sé eitt og að slysin gerist og fram fari fjölmiðlaumfjöllun. „En svo hætta blöðin eðlilega að fjalla um slysin, en eftir standa fjölskyldur og eftir standa samfélög sem eru eðlilega mörg ár og áratugi að ná sér. Það þarf stundum að hlúa að þeim sem eftir eru og mikilvægt að fjölskyldur standi saman,“ segir Áslaug að lokum.

Hugvekja Áslaugar Melax í heild

Hér að neðan er hugvekja Áslaugar Melax sem var flutt við minningarathöfnina í dag. Hugvekjuna tileinkaði hún móður sinni, Sigrúnu Ragnhildi Eiðsdóttur, sem lést í Reykjavík 16. júní 1972 í bílslysi og stjúpdóttur sinni, Elvu Ýri Óskarsdóttur, sem lést á Siglufirði 16. nóvember 2011 í bílslysi:

„Hver manneskja er veröld, einstök og helg.

Þegar hún hverfur endar heimurinn

og veröldin sem var kemur aldrei aftur.

Dauðinn er flókið hugtak fyrir börn. Eitt sumarkvöld þegar ég var sex ára gömul kvaddi ég móður mína með kossi þar sem hún var á leið í afmæli grunlaus um að þetta yrði síðasti mömmukosinn. Morguninn eftir situr prestur í stofunni heima. Hann kallar okkur systkinin til sín og segir að mamma sé dáin. Ég man eftir því að ég horfði í andlit þessa ókunna manns og velti því fyrir mér af hverju hann væri að segja okkur að mamma hans væri dáin. Ekki veit ég á hvaða tímapunkti ég áttaði mig á því að það væri móðir mín sem um var rætt.

Í kjölfar þessa atburðar tók við þögnin, þögnin um mömmu, þögnin um sorgina. Fáum minningum haldið á lofti, engin kertaljós og engar myndir. Aðeins heilög stund einu sinni á ári, eða á aðfangadag þar sem farið var með okkur systkinin í kirkjugarðinn og þar tendrað ljós. Hugmyndafræði þessa tíma var að því minna sem börnin vita, því betra. Því minni tengsl við sorgina, því betra og það örlitla atriði gleymdist að sex ára mannverur eru miklar vitsmunaverur og læra hvað mest í gegnum það að sjá og upplifa.

Það var erfitt sem barn í þessari aðstöðu að fá ekki útrás fyrir tilfinningar, söknuð og sorg og það sem maður lærði var að loka á hugsanir sínar og minningarnar smátt og smátt hurfu. Því er nauðsynlegt að leyfa börnunum að taka þátt í sorginni og tala til þeirra þannig að þau skilji.

Elva Ýr var aðeins 13 ára gömul þegar hún lést. Þrettán ára lífsglöð stelpa með ljósa hárið sitt og fallega brosið. Hún var á leið heim úr félagsmiðstöðinni þar sem unglingarnir á Siglufirði komu saman, hlógu, pískruðu og deildu reynsluheimi sem enn var svo ómótaður. Þetta kvöld endaði þó öðruvísi en nokkurt þeirra grunaði og reynsluheimur þeirra varð á einu augnabliki stærri og meiri en nokkurt barn á að þurfa að upplifa. Þau urðu vitni að slysi þar sem ein vinkona lést og tvær slösuðust, þar af önnur mjög alvarlega.

Þegar slys gerast fer af stað hjá ástvinum atburðarás sem er í senn þokukennd og óraunveruleg. Þetta kvöld 16. nóvember kemur símtal til pabba í Reykjavík þar sem móðirin hrópar í örvæntingu að ekið hafi verið yfir litlu stelpuna þeirra og verið sé að reyna að koma í hana lífi á meðan beðið er eftir sjúkrabíl. Í framhaldinu er ökuferð norður í land á methraða og örvæntingafullar tilraunir við að reyna að ná sambandi við almættið með öllum þeim bænum sem barnatrúin hafði kennt manni. Á miðri leið kom annað símtal, bænirnar hljóðnuðu. Hin einstaka og helga veröld Elvu Ýrar var öll.

Fyrir norðan beið harmi slegin fjölskylda. Móðirin sem hafði jafn grunlaus og ég mörgum árum áður kvatt Elvu sína, viss um að hún kæmi heim með sitt bjarta - „hæ mamma ég er komin“. Stóri bróðir, sem var ekki bara stóri bróðir, heldur sálufélagi og vinur og var með systur sinni þetta kvöld. Stjúppabbinn til margra ára sem kom á slysstað. Litli bróðir, ömmur, afar, frænkur, frændur og vinir.

Að kveðja ástvin er ein sárasta lífsreynsla sem nokkur getur gengið í gegnum. Þegar  andlát ber að garði viljum við standa að öllu með fegurð og virðingu. Það átti svo sannarlega við hjá Elvu litlu. Samtöl milli syrgjenda um fallega sál. Fegurð í samskiptum foreldra sem þurftu að standa upprétt og oft styðja okkur hin. Fegurð við kistulagningu þegar pabbi og afi í sameiningu breiða yfir litlu stúlkuna sína og loka kistunni þegar kvatt er í hinsta sinn. Fegurð við útför með blómum og fallegum söng. Fegurðin var allt í kring og á útfarardaginn sjálfan var himinninn skreyttur bleikum og fjólubláum litum, allt í anda Elvu Ýrar.

Stundum er talað um að þakklæti sé foreldri annarra dyggða og í lífinu almennt höfum við margt að þakka fyrir. Það er þó ekki sjálfsagt eða sjálfgefið að syrgjandi foreldrum sé þakklæti efst í huga á jafn erfiðum tímum og taka við þegar lífið ætti að vera að fara aftur í fastar skorður. Það er ekkert auðveldara en að festast í viðjum reiðinnar og láta hana leiða sig áfram og því miður oft á villum vega.

Á fésbókarsíðu sína, ekki löngu eftir andlát Elvu, skrifaði móðirin: „Ég er svo þakklát fyrir hvern dag og allt mitt fólk.“ Ég er svo þakklát - sagði hún. í samtali við gamlan félaga sem var að votta okkur samúð sagði pabbinn: „Ég er svo þakklátur vegna þess að ég hefði líka geta misst strákinn minn, hann var aðeins örfáum skrefum á undan.“

Að heyra foreldra þakka á tímum sem þessum sýnir þvílíkan kærleik og auðmýkt. Þvílíkan styrk og hugrekki.

Við sem stóðum Elvu nær berum endalaust þakklæti í brjósti til allra þeirra sem að málum komu. Lögreglumenn, sjúkraflutningamenn, læknar, hjúkrunarfólk, prestar, fólkið á Siglufirði og svona mætti lengi telja.

Það er ekki auðvelt hlutskipti að vera fyrstur á slysstað eða taka á móti stórslösuðu fólki á spítalann, styðja við ástvini og vera þannig í margþættu hlutverki. Við erum þakklát Umferðarstofu sem heldur úti öflugu starfi og stöðugum forvörnum. Leggur sig fram um að ná til sem flestra, bæði fullorðinna og barna með fræðsluefni og degi sem þessum.

Nú er aðventan framundan, tími ljóss, friðar og samveru. Meðan myrkrið grúfir yfir lýsum við upp umhverfi okkar með kertaljósum og fagurskreyttum perum. Dustum rykið af jólaskrautinu og skreytum, bökum og njótum líðandi stundar.

Þetta er einn erfiðasti tími ársins fyrir ástvini þeirra sem fallið hafa frá. Reynum að njóta, reynum að gleðjast. Rifjum upp allar þær yndislegu minningar sem við eigum, grátum og tölum saman og munum að í tárum okkar endurspeglast allt það sem þessi manneskja var okkur.“

Frá minningarathöfninni í dag.
Frá minningarathöfninni í dag. mbl.is/Árni Sæberg
Við minningarathöfnina minntust viðstaddir fórnarlamba umferðarslysa með einnar mínútu þögn.
Við minningarathöfnina minntust viðstaddir fórnarlamba umferðarslysa með einnar mínútu þögn. mbl.is/Árni Sæberg
Bára Benediktsdóttir, hjúkrunarfræðingur flutti einnig ávarp.
Bára Benediktsdóttir, hjúkrunarfræðingur flutti einnig ávarp. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka