65 ára karlmaður leitaði á bráðamóttöku vegna hita og roða út frá sári á hægri framhandlegg. Maðurinn kom til Íslands frá Úganda 7 dögum áður, en þar hafði hann verið á ferðalagi í tvær vikur. Í ferðinni hlaut hann fjölmörg skordýrabit víðs vegar um líkamann. Flest skordýrabitin hurfu án eftirkasta, en eitt bitsár á framhandlegg versnaði hins vegar, með auknum roða og hita. Hann var ekki með einkenni frá öndunarfærum, meltingarvegi eða þvagfærum.
Við komu á sjúkrahúsið voru lífsmörk eðlileg. Við skoðun sást vel afmarkaður allstór roðaflekkur á hægri framhandlegg og tvær rauðar rendur sem náðu langt upp á upphandlegg. Í miðjum roðaflekknum var sár með litlu opi og með hvíta miðju sem við fyrstu skoðun leit út eins og graftarköggull. Dregið var í köggulinn með grisju og kom þá út um 7 mm hvít ávöl lífvera.
Um þetta er fjallað í nýjasta hefti Læknablaðsins.
Hver er greining og meðferð í þessu óvenjulega máli?
Greiningin er lirfuóværa í húð (cutaneous myiasis). Lirfan er líklegast af tegundinni Cordylobia anthropophaga(tumbu-fly). Maðurinn var einnig með húðnetjubólgu (cellulitis) og vessaæðabólgu (lymphangitis).
Lirfuóværa er fyrst og fremst hitabeltissjúkdómur sem orsakast af flugnalirfum sem lifa sníkjulífi í hryggdýrum. Sjúkdómurinn er vel þekktur í mönnum en einnig algengt vandamál í húsdýrum.
Ein þekkt ástæða er meðal annars húsflugan Musca domestica sem finnst í nær öllum heimshlutum. C. anthropophaga, sem er nær einungis að finna í Afríku sunnan Sahara, verpir eggjum í jarðveg eða rakan þvott, sérstaklega ef hann er mengaður af úrgangi. Gott er að vita að eggin drepast þegar fatnaður og lín er straujað. Almennt hreinlæti dregur einnig úr smithættu. Ef eggið nær að þroskast án truflunar klekst það út á 1-3 dögum og getur lifað í allt að tvær vikur utan hýsils.
Eftir að lirfan kemst í snertingu við hýsil borar hún sig undir húðina og er sjúklingurinn yfirleitt einkennalaus, en kláði getur þó verið til staðar. Á 6 dögum myndast kýli með hita og roða. Talsvert ónæmissvar getur orðið umhverfis kýlið og geta sjúklingar fundið fyrir eitlastækkunum, hita og slappleika. Lirfan þarf á súrefni að halda og liggur öndunargat hennar í gegnum húðina. Frá því svæði getur vessað. Á 8-12 dögum verður lirfan fullþroskuð og nær þá gjarnan 12-15 mm lengd. Lirfan yfirgefur þá hýsilinn, borar sig niður í jarðveg og púpar þar svo úr verður fullorðin fluga.
Eftir ferð til hitabeltislanda leita 8-19% ferðamanna til læknis og eru húðútbrot algengustu umkvörtunarefnin, auk meltingarfæra- og öndunarfærasjúkdóma. Þessi vandamál getur rekið á fjörur allra lækna. Fáar rannsóknir eru til á algengustu sjúkdómsgreiningum húðútbrota í þessum hópi, en góðar upplýsingar má þó finna í franskri framskyggnri rannsókn sem tók til 269 ferðamanna með húðvandamál eftir ferðalög til hitabeltislanda.
Hérlendis hafa einhver tilfelli verið greind áður, þó þeim hafi ekki verið lýst. Er því full ástæða til þess að íslenskir læknar viti af tilveru þessar óværu, ekki síst í ljósi æ fleiri ferðalaga fólks til hitabeltislanda, segir í grein Læknablaðsins.
Meðferð við lirfuóværu er að ná út allri lirfunni. Aðeins finnst ein lirfa í hverju kýli en algengt er að sami einstaklingur sé smitaður af fleiri en einni lirfu og við skoðun sjúklings þarf að hafa það hugfast. Sýklalyf eru óþörf nema bakteríusýking sé komin í sárið, eins og raun var á í ofangreindu tilfelli.
Eftir að lirfan hafði verið fjarlægð og ljóst að hún kom í heilu lagi var sjúklingurinn meðhöndlaður gegn húðnetjubólgu með cloxacíllin í æð í sólarhring en skipt var þá yfir í díkloxacíllin töflur, 500 mg, fjórum sinnum á dag í viku. Sýkingin svaraði þessari meðferð vel og telst sjúklingurinn læknaður af lirfuóværu sinni, segir í grein Læknablaðsins.