„Í ljósi fjölmiðlaumræðu um brúðargjöf til okkar hjóna frá Eir í júní 2008 og með hvaða hætti fyrrverandi forstjóri, Sigurður H. Guðmundsson, hefur matreitt málið í fjölmiðlum höfum við ákveðið að skila þessari brúðargjöf og endurgreiða andvirði hennar til Eirar. Það eru fráleitar ásakanir fyrrverandi forstjóra að ég hafi skipað honum að gera þetta. Þeir sem til þekkja vita best að fyrrverandi forstjóri skipaði en lét aldrei skipa sér.“
Svo hljóðar yfirlýsing sem Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi stjórnarformaður hjúkrunarheimilisins Eirar, og eiginkona hans sendu frá sér í dag vegna staðhæfinga Sigurðar Helga Guðmundssonar, fyrrverandi forstjóra hjúkrunarheimilisins, þess efnis að Vilhjálmur hefði farið fram á við Eir að hann fengi 100.000 kr. brúðkaupsgjöf sumarið 2008.
- Þú neitar þá þessum ásökunum alveg?
„Algjörlega. Þetta er undirritað í bókhaldi fyrirtækisins. Ég fór upp eftir í morgun ásamt framkvæmdastjóra og skoðaði þennan reikning. Þetta er undirritað af Sigurði H. Guðmundssyni og Emil Th. Guðjónssyni fjármálastjóra og er sent mér og bréfið gefið út 16. júní þannig að ég hafi skipað honum, það er svo fjarri lagi að ég hafi gert þetta. Þetta var að frumkvæði hans.“
-En hvernig var með hina gjöfina sem hann endurgreiddi?
„Það var af því að hann hafði skrifað það sem lögfræðiaðstoð og lét það renna til dóttur sinnar, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, og hennar fjölskyldu. En ef menn vinna lögfræðistörf fyrir Eir þá senda þeir reikning.
-Var þér kunnugt um þetta á þessum tíma?
„Nei alls ekki.“
-Voru fleiri slíkar stórgjafir sem Hjúkrunarheimilið Eir gaf á þessum árum?
„Nei, mér er ekki kunnugt það.“
Sigurður Helgi Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri, hvatti í bréfi sem sent var fjölmiðlum í dag stjórn Eirar til þess að óska nú þegar eftir rannsókn á starfsemi Eirar. Ríkisendurskoðun hefur neitað að fara yfir bókhald félagsins. Vilhjálmur segir að hann vilji rannsókn á starfsemi þess.
„Ég óskaði eftir því við ríkisendurskoðun 12. október að fram færi úttekt á húsrekstrarsjóði Eirar og þessvegna á starfseminni allri og það tók nú ríkisendurskoðun þrjár vikur að svara því að þeir ætluðu ekki að gera það, þrátt fyrir að þeir hafi ávallt undirritað og skoðað reikninga, bæði rekstrarstjóðs og húsrekstrarsjóðs þá töldu þeir sér þetta óviðkomandi. Þá þegar flutti ég tillögu, 8. nóvember á stjórnarfundi, um að það yrði leitað til efnahags- og viðskiptaráðherra um að slík úttekt færi fram þannig að það hefur aldrei staðið á hvorki mér né stjórninni að óska eftir slíkri úttekt sem ég tel mjög mikilvæga,“ sagði Vilhjálmur.
„Þann stutta tíma sem að ég var framkvæmdastjóri og eftir að ég fór að rýna betur í stöðuna á næstu vikum eftir að ég tók við þá sá ég að þyrfti að grípa til hagræðingaraðgerða og við náðum því á síðari hluta ársins í fyrra að skera niður í rekstri sem nemur um 50 milljón króna á ársgrundvelli, bæði fyrir rekstrarsjóð og húsrekstrarsjóð og skiluðu sér í rekstri hjúkrunarheimilisins á síðasta ári með 2,7 milljóna króna afgangi.
Hitt er ljóst að efnahagshrunið, verðbólga og að við höfum ekki getað komið íbúðunum út „í vinnu“ eins og sagt er og líka rúmlega fjögurra ára seinkun á byggingu þjónustumiðstöð borgarinnar, sem átti að tengjast og eru nú reyndar framkvæmdir hafnar við, hafa valdið okkur ómældu tjóni. Það er ekkert launungarmál.
Það var undirritað samkomulag á milli Eirar og Reykjavíkurborgar um að þessar framkvæmdir ættu sér stað á ákveðnu tímabili, en borgin óskaði aldrei eftir riftun á því samkomulagi heldur bara seinkaði þessu ár frá ári og það er náttúrlega bara mál borgarinnar en hefur valdið okkur ómældu tjóni og líka afleiðingar hrunsins á löngum tíma og gert að verkum að fólk gat ekki losnað við sínar íbúðir og þess vegna kom það ekki til okkar. En núna í dag eru um 30 íbúðir lausar,“ segir Vilhjálmur.
Vilhjálmur segir þetta hafa haft gríðarleg áhrif á stöðu Eirar. „Enda erum við kannski ekki einir um það. Mér sýnist að þúsundir fyrirtækja og einstaklinga séu í slíkri stöðu í dag að það sé nú ekki bjart útlit hjá því fólki og fyrirtækjum. Við erum ekki að biðja um það að það verði afskrifaðir af okkur einhverjir milljarðar, fjarri lagi. Við teljum að með þeim aðgerðum sem nú er verið að vinna að og ég legg áherslu á að þar er verið að vinna mjög faglega og skipulega að þá mun okkur takast að komast út úr þessu og tryggja stöðu okkar lánardrottna og íbúðaréttarhafa.
Svo síðast en ekki síst þá er mikilvægt að þeir sem eru að vinna að þessu, faglegir aðilar sem hafa verið að vinna afskaplega góða vinnu, að menn fái vinnufrið til að sinna sínu starfi,“ segir Vilhjálmur.