Segir Vilhjálm hafa krafist gjafar

Hjúkrunarheimilið Eir í Grafarvogi.
Hjúkrunarheimilið Eir í Grafarvogi. Morgunblaðið/Ómar

Sigurður Helgi Guðmundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjúkrunarheimilisins Eirar, hefur endurgreitt heimilinu 300.000 krónur vegna gjafabréfs og brúðkaupsgjafar, sem hann segir Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi stjórnarformann Eirar, hafa farið fram á. Sigurður hvetur stjórn Eirar til að óska nú þegar eftir rannsókn á starfsemi heimilisins. 

Í bréfi, sem Sigurður sendi stjórn og framkvæmdastjórn Eirar á föstudaginn, segir að gjafabréfið hafi tengdasonur hans, Jóhannes Rúnar Jóhannesson hæstaréttarlögmaður, fengið sem þakklætisvott vegna vinnu fyrir Eir. Jóhannes hafi aftur á móti litið á störfin sem vinargreiða og hafi ekki farið fram á greiðslu, en Sigurður hafi ákveðið að umbuna honum með 200 þúsund króna gjafabréfi Icelandair.

„Hinn hluti greiðslu minnar, 100.000 kr., varðar gjöf sem Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson fór fram á að fá frá Eir í tilefni af brúðkaupi sínu. Sama hlýtur hins vegar að gilda um mína ábyrgð gagnvart þeirri ákvörðun og gjafabréfinu. Því endurgreiði ég brúðkaupsgjöfina líka hér og nú,“ segir í bréfi Sigurðar Helga.

„Samkvæmt frásögnum fjölmiðla hefur Ríkisendurskoðun fjallað um umrætt gjafabréf. Sú ágæta stofnun hefur ekki látið svo lítið að hafa samband við mig til að kalla eftir skýringum og sjónarmiðum eða virða yfirleitt á nokkurn hátt andmælarétt gagnvart mér. Mér þykja þau vinnubrögð sérkennileg.

Undanfarið hefur talsvert verið fjallað um málefni Hjúkrunarheimilisins Eirar. Erfið fjárhagsstaða þess er mikið áhyggjuefni og má ekki týnast eða gleymast í moldviðri um einstaka þætti eða einstaklinga sem málið varðar. 

Í ljósi alls þessa þykir mér við hæfi að hvetja stjórnina til að óska nú þegar eftir rannsókn á starfsemi Eirar þannig að óvilhöll heildarmynd fáist og ekkert verði þar undan dregið til að varpa ljósi á málið. Þá sitja allir við sama borð og eiga ekki að geta stjórnað því hvað dregið er fram í dagsljósið til umfjöllunar og hvað ekki,“ skrifar Sigurður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert