Segja stjórnmálamönnum ekki treystandi fyrir rekstri

Hús Orkuveitu Reykjavíkur.
Hús Orkuveitu Reykjavíkur.

Samband ungra sjálfstæðismanna, SUS, telur að nýleg skýrsla úttektarnefndar um Orkuveitu Reykjavíkur (OR) sýni að stjórnmálamönnum sé ekki treystandi fyrir fyrirtækjarekstri.

„Stjórnmálamenn stuðluðu að því að of mikil áhætta var tekin í rekstri OR og fjármunum var varið í kostnaðarsöm gæluverkefni. Þá var farið of seint í fjárhagslega endurskipulagningu þótt viðvörunarbjöllur hafi hringt víða,“ segir í ályktun sem stjórn SUS sendi frá sér í morgun.

„Sjálfstæðisflokkurinn tók við mikilli óstjórn árið 2006. Hann fór í tilteknar aðgerðir til að vinda ofan af vitleysunni, en því miður var ekki nóg gert. Borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins, að Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni undanskildum, tókst að stöðva þá gífurlegu áhættu sem hið svokallaða REI-mál hafði í för með sér. Staða OR væri enn verri hefðu þær fyrirætlanir gengið eftir sem Vilhjálmur undirbjó, í samráði við marga aðra en sinn eigin borgarstjórnarflokk.“

SUS segir að full ástæða sé til þess að hrósa meirihluta Besta flokksins og Samfylkingar fyrir þær aðgerðir sem þau gripu til. „Þetta er reyndar eitt af því fáa góða sem þessum meirihluta hefur lánast að gera vel á kjörtímabilinu. Á sama tíma má átelja borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins, undir forystu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrir að hafa ekki minnkað áhættu í rekstri OR þegar þau voru í meirihluta,“ segir í ályktuninni.

„Allt tal um að orkufyrirtæki eigi áfram að vera í opinberri eigu, en að minnka eigi áhrif stjórnmálamanna, er mjög varhugavert. Á meðan fyrirtækin eru í opinberri eigu er mjög ólýðræðislegt að embættismenn hafi mikið um málefni þeirra að segja og lýðræðislega kjörnir fulltrúar lítið. Stjórnmálamenn bera ábyrgð gagnvart kjósendum sínum. Segja má að kjósendur hafi úrræði til að reka þá á fjögurra ára fresti ef þeir fara illa með opinberar eignir. Embættismenn bera hinsvegar ekki ábyrgð gagnvart almenningi og því mega völd þeirra ekki vera of mikil.“

Stjórn SUS telur að besta leiðin sé að opinberir aðilar selji eignarhluti sína í orkufyrirtækjum.

„Þannig er tryggt að slík skuldsett áhættustarfsemi sé ekki rekin á ábyrgð skattgreiðenda. Í stað þess að um væri að ræða fé án hirðis myndu eigendur fyrirtækjanna hafa fulla stjórn á rekstri þeirra. Engir hefðu meiri hagsmuni af því, að tryggja góðan rekstur til langs tíma, heldur en eigendurnir. Þannig myndu engir skaðast af slæmum rekstri aðrir en eigendurnir og kröfuhafar,“ segir í ályktun stjórnar SUS.

Davíð Þorláksson formaður SUS.
Davíð Þorláksson formaður SUS.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert